139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála.

[10:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrir viku komst kærunefnd jafnréttismála að niðurstöðu í kærumáli vegna ráðningar skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Niðurstaðan varð sú að forsætisráðherra hefði brotið í bága við jafnréttislög við þá ráðningu. Fréttir bárust af því í gær að kærandinn í því máli hefði átt fund með forsætisráðuneytinu um úrlausn mála en lítið hefði komið fram á þeim fundi. Þar á meðal segir kærandi í samtölum við fjölmiðla að ekki hafi verið um að ræða neitt útspil eða neitt tilboð af hálfu forsætisráðuneytisins til að bregðast við því broti sem um ræðir.

Nú er það svo að jafnréttislögin eru skýr um það að niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er endanleg og bindandi. Ég vildi því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún teldi ekki að forsætisráðuneytið og forsætisráðherra hefðu frumkvæðisskyldu í því máli að koma með eitthvert útspil til að bæta kæranda það tjón sem orðið hefur í málinu eða hvort hæstv. forsætisráðherra teldi að viðkomandi einstaklingur þurfi að sækja rétt sinn með skaðabótamáli fyrir dómstólum.