139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður getur treyst því að sú sem hér stendur mun ekki fara fram á að leitað verði afbrigða til að þetta mál megi taka fyrir. Ég veit ekki betur en að búið sé að afgreiða það frá þingflokkunum og það sé þá komið til þings eða a.m.k. á leiðinni hingað og ætti að vera hægt að afgreiða það áður en fresturinn rennur út á morgun. Mér finnst hv. þingmaður setja of mikla tengingu á milli þess frumvarps sem er verið að leggja fram núna um breytingu á Stjórnarráðinu og þeirra áforma að stofna atvinnuvegaráðuneyti.

Frumvarpið um breytingu á Stjórnarráðinu, sem er mjög mikilvægt mál og stórt, byggist fyrst og fremst á niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um gerð breytinga á ýmsum málum innan stjórnsýslunnar og fjallar fyrst og fremst um það en er ekki sérstaklega sett fram til að ná fram breytingu í atvinnuvegaráðuneyti. Það er fullkominn misskilningur hjá hv. þingmanni.

Áformin um atvinnuvegaráðuneyti eru með þeim hætti að unnið hefur verið mjög ítarlegt starf í forsætisráðuneytinu þar sem hefur verið farið í ítarlegt ferli með hagsmunaaðilum og samtöl og samráð við þá. Það liggur nú fyrir hvað út úr því hefur komið, ég bíð bara eftir greinargerð frá þeim aðilum sem um það hafa fjallað og hver niðurstaðan var af því samráði og þá verður tekin ákvörðun um framhaldið að því er varðar atvinnuvegaráðuneytið.