139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður getur komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki meiri hluti fyrir máli sem hefur ekki verið tekið til umfjöllunar og hvað þá atkvæðagreiðslu. Það er atkvæðagreiðslan sem sker úr um það hvort málið nær fram að ganga eða ekki.

Mér finnst síðan alveg ljóst að hv. þingmaður hefur ekki kynnt sér málið. Það er náttúrlega ekki komið fram en skýrsla hefur legið fyrir lengi, unnin af sérstakri nefnd í tvö ár um þessar breytingar á Stjórnarráðinu. Hún fór eftir þeim tillögum sem fram komu hjá rannsóknarnefnd Alþingis, m.a. um að samhæfa þyrfti störf á milli ráðherra og kveða á um skyldur ráðherra til að leitast við að samhæfa stefnu og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið skarast og hvaða mál það eru sem eiga að fara fyrir ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Það var brotalöm á því fyrir hrun eins og við þekkjum sem menn, margir hverjir, rekja m.a. ástæðu hrunsins til, að það vantaði mikið upp á samhæfingu í því hvaða mál væru lögð fyrir ríkisstjórn o.s.frv. (Forseti hringir.) Hér er vissulega verið að fara eftir þeim tillögum sem rannsóknarnefndin hefur lagt fram og ég trúi (Forseti hringir.) því ekki að hv. þingmaður sé að gera athugasemdir við það.