139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:18]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu. Endurreisn fjármálakerfisins var auðvitað stærsta verkefnið eftir hrun þess, stærsta verkefnið í efnahagslegri endurreisn Íslands. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir, það verkefni er auðvitað enn þá til úrlausnar og því hefur ekki verið lokið.

Í reynd má segja að verkefnið greinist í þrjá hluta. Í fyrsta lagi var sá hluti sem fólst í endurreisn og endurfjármögnun fjármálastofnana og lagabreytingum sem beinlínis var ætlað að grípa inn í og leiðrétta ágalla sem í ljós höfðu komið fyrir hrun. Þessum hluta er núna lokið. Inn til Alþingis hafa komið frumvörp um fjárveitingar vegna eiginfjárframlaga inn í bankakerfið. Alþingi veitti heimildir til slíks á grundvelli neyðarlaganna á sínum tíma og þó að hv. þingmaður nefni hér þann galla sem felst í því að hafa samið við kröfuhafa með þeim hætti að eignirnar séu ekki aðskildar í góðan banka og slæman banka felst líka í því mikill ávinningur að ljúka málum í sátt við kröfuhafa með þeim hætti að þeir eigi hlutdeild í endurreisn íslensks efnahagslífs og hagnist á því ef vel gengur í íslensku efnahagslífi héðan í frá.

Enn fremur hafa komið inn fjölþættar lagabreytingar á grundvelli þeirrar skýrslu sem Kaarlo Jännäri gerði á sínum tíma og lúta að því að styrkja lagagrundvöll á fjármálamarkaði, auka heimildir Fjármálaeftirlitsins til inngripa og aðhalds. Það er of langt mál að þylja allar þær lagabreytingar upp en þær hafa komið hér inn og verið samþykktar.

Annar hlutinn stendur núna yfir. Hann felst í því að við vinnum úr þessu fjármálakerfi og komum því á traustari grunn. Í fyrsta lagi þarf að endurmeta regluverkið áfram til að tryggja hagkvæmara bankakerfi og draga úr áhættu. Við munum kynna hugmyndir þar um í skýrslu til Alþingis sem við náum inn vonandi á vorþingi. Við þurfum að hvata það ferli að bankarnir lagi sig að þeirri stærð sem íslenskt efnahagslíf þarf á að halda og þolir til lengri tíma litið. Þetta er umbreytingaferli sem óhjákvæmilega tekur einhvern tíma.

Í annan stað þurfum við með öllu regluverkinu að styðja við þetta ferli eins og við mögulega getum, þ.e. að rekstrarkostnaður bankakerfisins lækki og það verði í því hagræðing. Það er óhjákvæmilegt að fækka verulega störfum í fjármálakerfinu ef þetta á að ganga eftir og að bankarnir verði hér eftir minni, og meira í samræmi við það sem geta heimila og fyrirtækja stendur undir að borga í kostnað af fjármálakerfinu.

Í þriðja lagi þurfum við að vinna áfram í þessari skuldaúrvinnslu sem er grundvallaratriði til að efnahagsleg endurreisn geti átt sér stað þannig að bankarnir lækki hlutfall vanskilalána og að við beitum regluverki eins og mögulegt er til að flýta fyrir þeirri þróun þannig að það verði mjög dýrt og óhagkvæmt fyrir bankana að drolla við það verk. Við vinnum að því núna hörðum höndum. Það eru eiginlega þessar þríþættu breytingar; endurmat á regluverkinu til að draga úr áhættu og tryggja betur fjármálastöðugleika, hagræðing í kerfinu og nýting regluverksins til að knýja á um hana og í þriðja lagi skuldaúrvinnslan og hreinsun efnahagsreikninga bankanna, sem er grundvallarverkefnið þessi missirin. Markmiðið er að eftir einhver missiri, vonandi eins stuttan tíma og mögulegt er, stöndum við eftir með heilbrigt fjármálakerfi og að endurreisn fjármálakerfisins verði þá sannanlega lokið. Slíkt fjármálakerfi verði þá samkeppnishæft í alþjóðlegu tilliti og innheimti ekki þjónustugjöld sem eru úr samræmi við það sem tíðkast í öðrum löndum. Það fjármálakerfi þarf að þola afnám gjaldeyrishafta og það þarf líka að geta staðið undir því að innstæðutryggingakerfið virki með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þeirri löggjöf sem er núna til meðferðar á Alþingi og við getum afnumið forgang innstæðna fram yfir aðrar kröfur í fjármálafyrirtækjum. Þetta ferli gæti gengið yfir í þremur þrepum. Markmiðið er að eftir standi heilbrigt fjármálakerfi sem sé fært um að þjóna íslensku atvinnulífi og heimilum með fullnægjandi hætti án óbærilegs tilkostnaðar.