139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Endurreisn íslenska bankakerfisins er nú orðið skólabókardæmi og kennsluefni við virtustu hagfræðideildir háskóla í heiminum öllum. Það tókst, sem var með ólíkindum, að verja allar innstæður í öllum fjármálastofnunum og það tókst, eftir fullkomið hrun sem engin dæmi eru um í lýðræðisríkjum áður, að endurreisa bankakerfi með nánast engum tilkostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur. Vissulega tóku erlendir kröfuhafar skellinn, 6–8 þús. milljarða kr., en ríkið hefur lagt fjármálakerfinu til, bæði með eiginfjárframlagi og lánum, 184 milljarða kr. sem er 250 milljörðum minna en áætlað var.

En við skulum ekki gleyma því að það kemur eign á móti þessu framlagi. Spurningin er hvernig með þá eign skuli farið. Ég vil, frú forseti, taka skýrt fram að við vinstri græn teljum mikilvægt að hafa öflugan ríkisbanka og nú er ég að tala um til frambúðar, bæði í núverandi ástandi og eins þegar fram í sækir, kannski ekki til eilífðarnóns, en þó tel ég nauðsynlegt að ríkið eigi og fari með virkan hlut í bankakerfinu, u.þ.b. þriðjungshlut svipað og Norðmenn hafa gert. Hvers vegna? Jú, til að tryggja að þó að einkaframtakið með alla sína banka fari aftur á 2007-brautina verði áfram til banki sem þjónar fólki en ekki fjármagni, styður við atvinnulíf landsmanna og heimilin í landinu og þykir fengur að því að hafa þau í venjulegum bankaviðskiptum. Þannig bankakerfi þurfum við að hafa.