139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[11:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu, sem ég mæli nú fyrir fyrir ríkisstjórnar hönd, er leitað heimildar þingsins til þess að staðfesta fyrir hönd okkar Íslendinga ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á, eins og hæstv. forseti gat hér áðan, XX. viðauka við EES-samninginn. Hann fjallar um umhverfismál. Með tillögunni er gert ráð fyrir því, og hinni sameiginlegu ákvörðun sem í kjölfarið siglir, að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB en hún fjallar um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin efni sem menga andrúmsloft og geta skaðað lífríki og heilsu manna.

Markmið þessarar tilskipunar er, eins og af þessum orðum leiðir, að vernda umhverfið, vernda heilsu manna gegn skaðlegum áhrifum súrrar ákomu, ofauðgunar jarðvegs og sömuleiðis áhrifum ósons við yfirborð jarðar. Eins og menn vita getur óson haft mjög skaðleg áhrif á þeim stað þó að við teljum ákaflega æskilegt að hafa sem mest af því ofarlega í gufuhvolfinu til þess að vernda lofthjúpinn.

Þessari tilskipun er líka ætlað að vinna að því, sem við getum sagt að sé langtímamarkmið hennar, að halda loftmengun innan marka sem við teljum að séu nauðsynleg til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á heilsu manna og takmarka og koma í veg fyrir ýmis heilsufarsleg vandamál sem geta stafað af loftmengun og sömuleiðis að hindra skaðleg áhrif þeirra á lífríkið. Þessi tilskipun hefur gildissvið sem nær til losunar tiltekinna efna af mannavöldum frá uppsprettum á landi, sömuleiðis innan efnahagslögsögu viðkomandi ríkja. Undir hana fellur þó ekki losun frá alþjóðlegum siglingum og loftförum, þó að frátalinni losun sem verður vegna flugtaks og lendingar flugvéla á landinu.

Innleiðing þessarar tilskipunar krefst breytinga á íslenskum lögum. Ísland mun á næstu árum þurfa að takmarka losun þeirra efna sem falla undir tilskipunina, einkum og sér í lagi brennisteinsdíoxíðs. Eins og þingheimur veit af umræðum sem hér hafa orðið á síðustu missirum hefur losun þess aukist verulega á síðustu árum. Hana má helst rekja til jarðhitavirkjana. Sömuleiðis þarf að gera breytingar á reglum sem varða upplýsingaskyldu fyrirtækja þannig að unnt sé að halda fullnægjandi losunarbókhald í samræmi við þær kröfur sem eru gerðar samkvæmt andlagi þessarar þingsályktunartillögu.

Á næsta löggjafarþingi hyggst hæstv. umhverfisráðherra leggja fram lagafrumvarp sem tekur á því og með þeim hætti fær þingið tilefni og tækifæri til að fjalla um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru og stafa af þessari innleiðingu. Ekki er gert ráð fyrir verulegum kostnaði fyrir ríkissjóð vegna innleiðingarinnar. Sá kostnaður sem hugsanlega fellur til mun einkum leiða af tvennu, í fyrsta lagi af vinnu við aðgerðaráætlun, losunarbókhald og gera losunarspá, en í öðru lagi mun vinnu við gerð þeirra fylgja einhver stofnkostnaður. Það er heldur ekki loku fyrir það skotið að einhver kostnaður kunni að falla á atvinnulífið ef þörf verður á að gera auknar kröfur á grundvelli þessa þegar búið er að breyta lögunum eins og ég rakti hér áðan til að þau geti staðist þær kröfur sem gerðar eru vegna losunar efna sem falla undir þessa tilskipun, t.d. ef fyrirtæki þurfa að koma sér upp einhvers konar varnarbúnaði gegn mengun umfram það sem þau búa við nú þegar.

Það er ekki búist við að þessi innleiðing hafi í för með sér einhverjar stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.

Eins og kom fram í upphafi máls míns, og um miðbik þess raunar líka, er þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þess eðlis að hún kallar á lagabreytingar hér á landi. Þess vegna var hún, eins og lög gera ráð fyrir, tekin með stjórnskipulegum fyrirvara og því er óskað eftir því við Alþingi að fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst verði samþykkt svo aflétta megi þessum stjórnskipulega fyrirvara.

Frú forseti. Þegar við höfum rætt þetta mál í þaula og umræðu sleppir legg ég til að þessari tillögu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.