139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[12:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er sérstakur dagur fyrir mig. Það hefur ekki gerst áður að hv. þingmaður Pétur H. Blöndal komi og segi að ræður mínar hljómi sem englasöngur í eyrum hans. Hann hefur sömuleiðis bent á þá breytingu sem orðið hefur á mínum högum, að ég starfi ekki lengur með flokkum í ríkisstjórn sem hann telur að séu mjög uppbyggilegir fyrir atvinnulífið. Ég bendi honum þó á, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson innti mig eftir áðan, að ég er þó alla vega í blárri skyrtu með blátt bindi og kominn með blátt merki, án þess að menn eigi að leggja of djúpa merkingu í það.

Það er eigi að síður þannig að það er margt að gerast. Hv. þingmaður sagði undir lok ræðu sinnar að ég hefði ekki nefnt að það skorti fjármagn til ýmissa verka. Það var nú af tillitssemi við hann og flokk hans að ég ræddi það ekki, en það er auðvitað Icesave-málið hið óafgreidda sem veldur því að okkur hefur ekki tekist að afla fjármagns t.d. (PHB: Ó, nei.) í Búðarárvirkjun. Ef hv. þingmaður á með sínu „ó neii“ úti í sal t.d. við það að nýlega hafi verið fregnir um að NIB hafi lánað 9,6 milljarða til Landsvirkjunar ætti hann að lesa þann samning. Þar kemur í ljós að það lán er skilyrt því að önnur fjármögnun takist og hún tekst ekki nema Icesave ljúki.

Hitt er rétt hjá þingmanninum að það er hægt að fara aðrar leiðir, t.d. í gegnum lífeyrissjóðina. Það hef ég bent á mörgum sinnum. Ég hef m.a. bent á að það væri alveg kjörið fyrir lífeyrissjóðina að taka yfir virkjanir sem Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki treyst sér til sökum þess viðskilnaðar sem fyrri borgarstjórn ber sök á, en ekki núverandi. Nú vill svo til að á þeim tíma voru lífeyrissjóðirnir ekki til í það. Ég hef því miður ekki vald yfir lífeyrissjóðunum. Eins og hv. þingmaður veit hafa þeir engan hirði. Ég er a.m.k. ekki hirðir þeirra. En veður hafa skipast í lofti og hugsanlegt að með þeim tíðindum sem við höfum heyrt síðustu daga geti þetta breyst.