139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[12:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Dagskrá þingsins liggur fyrir og við sjáum öll hver hún er. Ég tel hins vegar mikilvægt að forseti biðji forustumenn ríkisstjórnarinnar að gera þinginu grein fyrir því í hverju tillögur þær felast sem þau munu birta og bjóða Samtökum atvinnulífsins og ASÍ á fundi sem er víst ráðgerður núna klukkan eitt. Mér skilst að ríkisstjórnarfundur verði hálftvö. Ef þetta eru þær tillögur sem boðaðar hafa verið af hálfu forsætisráðherra, ef þetta eru markvissar og meiri háttar tillögur sem munu koma okkur áfram til endurreisnar íslensku samfélagi, tel ég mikilvægt að þingið sé mjög vel upplýst um gang mála; hvernig menn ætla að fara af stað og drífa áfram hagvöxtinn, hvernig menn ætla að koma atvinnulífinu í gang, (Gripið fram í.) hvernig tillögurnar munu hafa áhrif á fjölskyldurnar í landinu og (Gripið fram í.) fyrirtækin í landinu.

Ég hvet hæstv. forseta til að gefa svigrúm í dagskránni einhvern tímann í dag svo við sem tilheyrum þinginu, löggjafarvaldinu, getum fengið greinargerð um hvers konar tillögur er að ræða sem m.a. er ætlað að liðka fyrir kjarasamningum.