139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ætli hlot sé nokkuð þýðing eða yfirfærslutilraun á enska orðinu „body“? Ætli það sé ekki frekar latneska orðið „corpus“ í ýmsum útgáfum sem menn eru að fást við þar? Ég hygg að svo sé. Það má vera að hv. þingmaður skilji ekki orðið, en það er líklega myndað með a-hljóðvarpi af orðinu hlutur og ætti að vera öllum mönnum skiljanlegt í því ljósi.

Um orðið heild er það að segja að ætli elstu dæmi um það séu ekki frá 12. eða 13. öld, úr íslensku hómilíubókinni eða Íslendingasögunum. Þetta er alveg prýðilegt orð og þýðir allan skrattann á íslensku ef menn vilja fara í það. Það er ekki alltaf heppilegt að slík orð séu síðan notuð í íðorðaskyni þó að orðið sé auðvitað ágætt.

Ég verð hins vegar að segja að ég held að það örli á misskilningi í greinargerðinni sem hv. þingmaður hefur fyrir máli sínu þar sem hann segir að annað hljómfegurra, gagnsærra og skýrara orð sé fyrir í íslensku máli, þ.e. orðið vatnsheild. Ég kannaði það aðeins í ritmálssafni Orðabókar Háskólans, sem a.m.k. einu sinni hét svo, og í textasafni þeirrar sömu stofnunar og síðan á timarit.is. Ég fann eitt dæmi um það að orðið vatnsheild hefði verið notað í ritmáli íslensku, aðeins eitt, og það er frá Jóni Dan rithöfundi sem samdi árið 1940 grein sem heitir „Um orð“ og notar þar á meðal þetta orð. Fyrst talar hann um egg sem sé fallegt orð og fallegt form, síðan dásamar hann mjög eðli dropans og segir m.a., með leyfi forseta:

„Vatn fellur ekki sem vatnsheild“ — það er sem sé eina dæmið um þetta orð í íslensku — „heldur sem dropasafn, og jafnvel aðeins ein stærð er nothæf fyrir vökvann til að kljúfa loftið. Ef vökvinn er of yfirgripsmikill í byrjun fallsins, tvístrast hann. Ef einhver önnur lögun væri heppilegri til að kljúfa loftið, mundi dropinn vafalaust fá á sig þá lögun. Vökvi er mjúkt efni og tekur auðveldlega breytingum. En það að kljúfa loftið (Forseti hringir.) gefur dropanum einmitt þetta snið.“

Þetta er eina dæmið í íslensku um það orð sem hv. þingmaður segir að sé hljómfegurra, gagnsærra og skýrara og sé til (Forseti hringir.) fyrir í íslensku máli.