139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fjármálafyrirtæki.

659. mál
[13:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Með frumvarpinu, sem er á þskj. 1772, mál nr. 659, er lögð til breyting á h-lið 2. mgr. 99. gr. laganna, sem kom nýr inn í lögin árið 2004 við innleiðingu ákvæða tilskipunar Evrópusambandsins nr. 24/2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.

Markmið þessarar tilskipunar er að tryggja gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkja á ráðstöfunum um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja og málsmeðferð sem fylgir í kjölfarið. Samkvæmt tilskipuninni skal að meginstefnu fara um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækis sem hefur aðalstöðvar í einu aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og útibú í öðru aðildarríki eftir lögum heimaríkis en ekki gistiríkis.

Ákvæði h-liðar 2. mgr. 99. gr., samanber og 2. málsl. 1. mgr. 104. gr. laga um fjármálafyrirtæki, felur efnislega í sér að það ræðst af löggjöf gistiríkis hvort mál sem höfðað var áður en úrskurður um endurskipulagningu eða slit var kveðinn upp verði fellt niður eða haldið áfram. Um er að ræða innleiðingu á 32. gr. tilskipunar nr. 24/2001.

Nú standa íslensk fjármálafyrirtæki og þar með skilanefndir og slitastjórnir frammi fyrir því að erlendur dómstóll leggur aðra merkingu í ákvæði 2. mgr. 99. gr. í núverandi mynd en gengið hefur verið út frá hér á landi. Hinn 16. mars sl. féll dómur í Englandi í máli þarlendra aðila gegn Kaupþingi banka hf. sem nú er í slitameðferð samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Þar reyndi á frávísunarkröfu Kaupþings, sem hélt því m.a. fram að mál yrði ekki höfðað gegn bankanum meðan hann væri í greiðslustöðvun eða slitameðferð samkvæmt íslenskum lögum.

Í stuttu máli komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að af orðalagi h-liðar 2. mgr. 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki megi ráða að 32. gr. tilskipunar 2001/24/EB hafi verið innleidd í íslenskan rétt með víðtækari hætti en tilskipunin gerir ráð fyrir. Afleiðing þess er samkvæmt dómnum að ákvæðið verði að túlka með þeim hætti að réttaráhrif málshöfðunar gegn íslensku fjármálafyrirtæki sem er í endurskipulagningar- eða slitameðferð ráðist af lögum gistiríkis, þ.e. enskum lögum í þessu tilviki, óháð því hvort málið hafi verið höfðað áður en úrskurður um endurskipulagningu eða slit var kveðinn upp. Þessi túlkun gengur þvert gegn grunnsjónarmiðum íslenskra laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, og XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, um endurskipulagningu, fjárhagsslit og samruna slíkra fyrirtækja. Ef hún yrði hins vegar lögð til grundvallar almennt á Evrópska efnahagssvæðinu er líklegt að mál yrðu í mörgum tilvikum rekin fyrir dómstólum bæði erlendis og hér á landi, með tilheyrandi kostnaði.

Það skal tekið fram að Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki gert athugasemdir við innleiðingu þessa tiltekna ákvæðis tilskipunarinnar hér á landi þannig að ekki er hægt að draga þá ályktun að Eftirlitsstofnun EFTA sé sammála hinum enska dómi að þessu leyti. Þá verður ekki ráðið af lögskýringargögnum að við setningu núgildandi 2. mgr. 99. gr. hafi staðið til að ganga lengra við innleiðingu 32. gr. tilskipunarinnar en orðalag lagaákvæðisins gefur til kynna.

Í ljósi þess að verulegir hagsmunir kunna ella að vera í húfi, og með vísan til jafnræðis kröfuhafa, er með þessu frumvarpi lagt til að orðalagi h-liðar 2. mgr. 99. gr. verði breytt þannig að öllum hugsanlegum vafa verði eytt um að túlka beri ákvæðið til samræmis við 32. gr. tilskipunarinnar frá 2001 samkvæmt orðanna hljóðan. Þannig verði öll tvímæli tekin af um að ákvæðinu sé eingöngu ætlað að undanþiggja þau mál frá gildissviði íslenskra laga sem höfðuð hafa verið fyrir upphaf slitameðferðar eða endurskipulagningar. Ákvæði 2. mgr. 99. gr. laganna um fjármálafyrirtæki verði því svohljóðandi að teknu tilliti til breytingartillögunnar:

„Um réttaráhrif úrskurðar um endurskipulagningu fjárhags á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem lánastofnun hefur látið af hendi sem hafin var fyrir uppkvaðningu úrskurðar um endurskipulagningu fjárhags fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.“

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. viðskiptanefndar til umfjöllunar.