139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fjármálafyrirtæki.

659. mál
[13:42]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst leiðrétta það að þetta mál snýst ekki um að innleiða nýja tilskipun, það snýst um að leiðrétta misskilning ensks dóms á efnisákvæðum íslenskra laga og undirstrika hver skilningur löggjafans var við setningu löggjafarinnar. Það er erindið sem þetta frumvarp hefur.

Varðandi að öðru leyti umgjörðina utan um fjárfestingar almennt er það auðvitað verkefni, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, sem snýr að alþjóðlegum félagarétti. Við viljum ekki að íslensk hlutafélög séu sett skör lægra eða séu með einhverjum hætti lakar sett í samkeppni við hlutafélög sem eiga heimilisfesti annars staðar. Við viljum búa atvinnulífinu samkeppnishæft rekstrarumhverfi en við viljum líka draga úr áhættu eins og kostur er og þetta er verkefni sem við þurfum að takast á við í kjölfar hrunsins.