139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[14:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans á því máli sem hér liggur fyrir. Ég vil auðvitað þakka honum kærlega fyrir þann stuðning sem fólst í orðum hans um breytingartillögu mína, um að ýta út þessum hlotum öllum saman, og tek undir það með honum að Þingvallavatnshlot er eitthvað sem fær mig til að hrylla mig, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson.

Það er annað atriði sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um og það varðar 14. gr. frumvarpsins. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar fyrr í dag, að fram hefur farið töluverð málhreinsun í vinnu við frumvarpið. Ég á von á því að geta farið betur yfir það í ræðu hér á eftir. Það er nú svo að sú stofnanamállýska sem verið er að leggja hér fram sem drög að lögum getur alveg farið út í villtustu öfgar og komið út sem hreinar ambögur eða öfugmæli. Þannig er því háttað með eitt atriði í því frumvarpi sem hér er til 3. umr., og það er orðið „forgangsefni“.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér sammála um að orðið „forgangsefni“ í íslensku máli þýði eitthvað sem hafi forgang, sé í fyrirrúmi, sé eitthvað jákvætt og eigi þess vegna að njóta tiltekins forgangs.