139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[14:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir spurninguna. Það er nú oft þannig að þegar stórt er spurt þá verður kannski ekki jafnauðvelt um svör og ella. Ég sé í sjálfu sér ekki að það sé klukkutíma- eða dagaspursmál hvenær þessi lög verða afgreidd frá þinginu. Ég held að við verðum að horfa til þess að við erum að setja lög til margra næstu áratuga sem eiga að duga okkur vel og nýtast þjóðinni til að vernda býsna dýrmæta auðlind, til verndar og stuðnings og stjórnunar á henni. Auðvitað má þá ekki flýta sér um of, það verður að gera það af einhverri skynsemi.

Ég tel raunar að hv. umhverfisnefnd hafi í mjög mörgum atriðum bætt það frumvarp sem kom fyrir þingið. Í því eru mörg atriði sem horfa til verulegra bóta umfram það frumvarp sem kom upprunalega fram. Ég nefndi til að mynda áðan 10. gr. Það eru einnig, eins og kom fram í máli hv. formanns umhverfisnefndar, býsna mörg orðalagsatriði önnur sem mætti laga. Síðan kemur, eins og við höfum talað um áður, tillaga frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, sem ég tel raunar að sé mikilsverð, um að reyna að forða okkur frá orðskrípum. Ég er satt að segja hissa, eins og ég vænti að hv. þingmaður sé, á þeim tiltölulega takmarkaða áhuga sem hv. þingmenn hafa sýnt þessu máli, þ.e. aðrir en þingmenn hv. umhverfisnefndar. En nákvæmlega í hverju sá afgreiðsluhraði (Forseti hringir.) sem við horfum á liggur þori ég hreinlega ekki að segja til um.