139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[14:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er nú, held ég, allnokkur ástæða til þess, við umræðu um frumvarpið sem hér liggur fyrir um stjórn vatnamála, að fríska aðeins upp á skilning manna á því orði sem mest hefur verið til umræðu hér, þetta vatnshlot. Í frumvarpinu er orðið skilgreint á þann veg að „hlot“ sé „eining vatns“, svo sem allt það vatn sem er að finna í stöðuvatni, á eða strandsjó. Fyrir þá sem hlusta á þessa umræðu er nauðsynlegt að þessi skilgreining komi fram því að hér hefur verið tekist allnokkuð á um þetta orð. Þegar ég hlustaði á hv. formann umhverfisnefndar og hv. varaformann umhverfisnefndar í ræðu og andsvörum áðan um þetta, „hlaut“ mér í hug:

Álfheiði hlotnast sá heiður

að hefja á loft orðið heild.

En í heildina tekið

ég get ekki metið,

hvort Mörður sé vatnshlot eða leiður.

Þessi umræða ber nokkurn keim af því að umhverfisnefnd hefur við meðferð þessa máls þurft að tileinka sér nokkuð mörg ný hugtök og verulegur tími hennar hefur hreinlega farið í að skilja mörg af þeim hugtökum sem hafa verið lögð fram til umræðu. Það verður að segjast eins og er að frumvarpið, frá því það kom fyrst inn til þeirrar gerðar sem það liggur nú fyrir í, hefur tekið allverulegum breytingum. Ég leyfi mér að fullyrða að þær breytingar hafi flestar verið til bóta og í nefndinni hefur sem betur fer tekist ágætissamstarf um þetta verkefni. Þó svo að þessi kýtingur hér undir lok afgreiðslunnar um einstök orð beri umræðuna kannski ofurliði, gefur það ekki endilega rétta mynd af þeirri vinnu sem fram hefur farið um málið í nefndinni. Ég vil sem sagt lýsa yfir ánægju með það hvernig okkur hefur gengið að komast til þeirrar stöðu sem hér liggur fyrir.

Það þýðir þó ekki að maður hafi ekki ákveðna fyrirvara við einstök atriði í frumvarpinu. Ég og samflokksmaður minn, Birgir Ármannsson, erum á því nefndaráliti sem hér liggur fyrir án fyrirvara. Í nefndinni höfum við hins vegar komið á framfæri sjónarmiðum við einstök atriði sem við höfum allnokkrar áhyggjur af þegar kemur til framkvæmda á frumvarpinu þegar það er orðið að lögum. Sérstaklega ber að nefna það atriði sem við höfum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar vakið máls á, sem lýtur að því mati sem fjárlagaskrifstofa vinnur á þeim frumvörpum sem koma inn til þingsins, þá sérstaklega í þessu tilviki þar sem við erum að innleiða Evróputilskipun sem mun hafa mjög víðtæk áhrif mjög víða í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og hefur síðan áhrif á fyrirtæki og einstaklinga, heimili landsins, þegar fram í sækir, meðal annars að því sem lýtur að gjaldtöku. Það er óútfært með hvaða hætti framtíðargjaldtöku vegna þessara mála verður háttað. Það liggur fyrir í kostnaðarmati með frumvarpinu að gert er ráð fyrir kostnaði upp á 70 millj. kr. til viðbótar þeim 40 milljónum sem þegar eru á fjárlögum eða í rekstri ríkisins núna, þannig að í heildina tekið er ætlunin að eyða í þetta um 100–110 millj. kr. á ári næstu þrjú árin.

Á þeim tíma á að móta nýjar leiðir til gjaldtöku. Þar hefur komið fram, í minnisblöðum sem hafa verið lögð fyrir umhverfisnefnd, að ætlunin er að reyna að innleiða almennan skatt á þeim nótum að þeir sem nýta beri kostnaðinn af framkvæmd þessara laga. Þá er það sem vantar upp á, að mínu mati, í það kostnaðarmat sem fram er reitt fyrir þingið þegar frumvörpin eru að koma inn, að leggja mat á þann ábata sem af viðkomandi lagasetningu á að verða eða getur orðið. Umræðan um lagafrumvörp er oft og tíðum á þann veg að þau beri það fyrst og fremst í sér að leggja byrðar á þá starfsemi sem undir viðkomandi lög heyra, en með einhverjum hætti er sjálfsagt að gera þá kröfu, eins og raunar er í regluverkinu sem um þessi mál gilda, að lagt sé mat af hálfu ráðuneytanna á ábatann af þeirri lagasetningu sem fyrirhuguð er. Það er misbrestur á þessu allverulegur. Ég held að það sé eitt af stærri málum þingsins að gera þá kröfu til framkvæmdarvaldsins, þegar það er að koma fram með mál af þeirri stærðargráðu sem hér liggur fyrir, að þau séu unnin allt til enda samkvæmt þeim reglum sem um þetta gilda.

Annað atriði sem ég vil nefna hér lýtur að þeim breytingum sem verið er að gera á 10. gr. frumvarpsins og kom ágætlega fram í máli hv. formanns nefndarinnar og eins hjá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni hér áðan. Ég tel þær breytingar sem gerðar hafa verið til bóta frá þeirri tillögu sem lá fyrir við 2. umr. málsins. Það má í rauninni spyrja sig hvernig það verður til að sú breyting sem þá lá fyrir og var gerð á 10. gr. kæmi inn. Skýring mín á því er tiltölulega einföld. Hún kemur til af því að þegar verið er að vinna að lagasetningu eru ótal aðilar að reyna að tryggja ítök sín eða passa upp á sitt ef maður getur sagt sem svo í tengslum við þá fyrirhuguðu lagasetningu sem unnið er með. Þetta sáum við ágætlega í umræðum og athugasemdum við það sem áður hét svokallað „vatnaráð“ þar sem ótal stofnanir voru að reyna að tryggja aðkomu sína. Í þessum kafla, um rannsóknir og annað, sáum við hvernig ríkisstofnanir, og þá sérstaklega Náttúrufræðistofnun Íslands, var að reyna að tryggja sér ákveðna stöðu, ákveðin verkefni og á þeim grunni geta sótt til sín og styrkt sig og í rauninni ekkert óeðlilegt við þann metnað sem stofnanir sýna í þá veruna. Að minni hyggju átti það ekkert erindi inn í þá almennu lagasetningu um stjórn vatnamála sem hér liggur fyrir. Ég fagna því þeirri breytingu sem þarna hefur verið gerð.

Ég vil aðeins koma inn á það fyrirkomulag sem hér er sett upp um samstarf rannsóknastofnana, þar sem Umhverfisstofnun er annars vegar ætlað að semja við Veðurstofuna, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnun, um að leggja fram gögn og sérfræðiþekkingu, og að hinu leytinu um ákveðin tiltekin verk — að þessar stofnanir vinni þetta fyrir Umhverfisstofnun á grunni reglugerðar og að gerðum ákveðnum samningum. Ég vil í því sambandi leggja áherslu á það og undirstrika að náttúrustofur, hér var Náttúrufræðistofa Kópavogs t.d. nefnd, sinni ákveðnum þáttum sem tengjast þessu. Ég geri ráð fyrir því að þessari sérfræðivinnu, möguleika á gagnasöfnun og einhverri vinnu, sé líka hægt að finna stað hjá einstaklingum vítt um landið, hjá þeim náttúrustofum sem nú þegar eru starfandi, því þar er mjög margbrotin sérfræðiþekking sem full ástæða er til að nýta fremur en safna öllu saman á einn stað í miðlæga ríkisstofnun eins og tilhneigingin virðist hafa verið að gera í svo miklum mæli á undanförnum missirum og árum.

Að lokum, forseti, vil ég segja að stuðningur okkar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni við frumvarpið eins og það liggur fyrir er heill og óskiptur með þeim athugasemdum sem ég hef gert grein fyrir.