139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fundarstjórn.

[14:28]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Fyrir hádegishlé bað ég hæstv. forseta að athuga hvort ekki væri hægt að hliðra til í dagskránni þar sem nú er verið að kynna, að sögn forsætisráðherra, umfangsmiklar tillögur ríkisstjórnarinnar til þess vonandi að efla hagvöxt, koma atvinnulífinu af stað, aðgerðir sem verða vonandi til þess að halda utan um fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu. Ég tel eðlilegt að ef þær eru eins umfangsmiklar og sagt er verði þinginu kynntar þær þannig að við förum ekki inn í helgina og lesum í fjölmiðlum um hvað málið snýst. Ég tel þetta brýnt. Ég tel okkur með þessu vera að undirstrika það sem alltaf er verið að segja, að löggjafarvaldið sé ekki einhver þurfalingur á framfæri framkvæmdarvaldsins, ég tel mikilvægt að við þingmenn fáum upplýsingar frá ríkisstjórninni um það í hverju þessar tillögur felast þannig að við getum áttað okkur á því hvernig við byggjum upp á Íslandi til lengri tíma.

Það skiptir máli og það er þýðingarmikið að við komum á kjarasamningum. Þess vegna er líka mikilvægt fyrir okkur að vita í hverju þessar tillögur ríkisstjórnarinnar felast þannig að þingið geti brugðist við með verðugum hætti.