139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[14:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, hlýtur að taka undir það með mér sem alþingismaður á Alþingi að Alþingi á ekki að þurfa að sætta sig við það að ríkisstjórnin hverfi af vettvangi meðan hér stendur þingfundur til að ræða önnur mál en hér eru á dagskrá. Hvar í flokki sem þingmenn standa verða þeir auðvitað að standa í ístaðinu og tryggja að ráðherrar séu hér þegar þeir eiga að vera hér.

Ég þakka hins vegar hv. þingmanni fyrir að taka svona vel í beiðni okkar og bjóðast til þess að hafa samband við sitt fólk. Ég legg mikla áherslu á það að umræða um kjaraviðræður fari fram á Alþingi í dag, hvort sem þessar umræður hafa skilað árangri eða ekki, vegna þess að það eru líka mikil tíðindi í því falin ef aðilar vinnumarkaðarins og hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) ná engum árangri og þá þarf líka að ræða stöðuna og framhald málsins.