139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[14:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem komu frá forseta um það sem við erum að biðja um, að fá upplýsingar um hvað sé þarna í gangi. Ég verð hins vegar að lýsa yfir ákveðnum áhyggjum af því að svo virðist sem forseti eða þá forsætisnefnd hafi heldur ekki verið upplýst um þennan fund og að það væri ætlunin að leggja fram ákveðnar tillögur, a.m.k. miðað við þau svör sem komu frá forseta.

Ég tel þetta líka sýna að þessi ríkisstjórn hafi nánast gefist upp á því að vera í hinu svokallaða samráði eins og var talað mikið um hérna, a.m.k. þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður þótt hann hafi meira og minna verið svikinn. Þá var þó stjórnarandstöðunni boðið að sitja við borðið, hlusta og taka þannig þátt og fá upplýsingar sem hún gat þá borið hingað inn á þing. Það virðist ekkert vera í þessu máli þrátt fyrir, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að forsætisráðherra hefði tilkynnt um að það tæki verulega í hvað varðaði þær tillögur sem er verið að kynna hérna í dag.