139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, ég hef barist fyrir hagsmunum sparifjáreigenda, svokallaðra fjármagnseigenda. Það er nefnilega þannig að sparifjáreigendur eru náttúrlega fjármagnseigendur og nánast engir aðrir, reyndar lífeyrissjóðirnir líka. (GÞÞ: Ekki horfa á mig.)

En ég ætla ekki að veita sparifjáreigendum einhverja gerviábyrgð. Ég ætla ekki að plata fólk. Ég ætla ekki að setja það á svið að ef lítill sparisjóður fari á hausinn sé þetta allt í lagi en ef stóru bankarnir fari á hausinn sé ekkert til. (SKK: Hvar er jafnræðið í þessu?) Hvar er jafnræðið? Og er verið að segja litlu sparifjáreigendunum í stóru bönkunum að fara í litla sparisjóðinn sem þá verður stór?

Menn eru hérna að búa til gervistyrkingu á atvinnulífinu en ekki styrkingu. Það er nógu lítið traust þótt maður komi ekki með svona gervilausnir. Það sem menn eiga að gera er að ná saman samnorrænum innlánstryggingarsjóði eða helst evrópskum innlánstryggingarsjóði því að þessi regla er galin fyrir lítil þjóðfélög.