139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég bað um orðið undir liðnum um fundarstjórn forseta er að ég hafði einmitt ítrekað beiðnina sem ég vissi að lá fyrir frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Sá forseti sem sat í forsetastól varð því miður ekki við þeirri beiðni. Ég held að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi þeirra umfangsmiklu breytinga sem verið er að gera á frumvarpinu og þeirrar umræðu sem verið hefur um aðkomu Evrópusambandsins að málinu, að sá ráðherra sem verið hefur einna duglegastur við að heimsækja Brussel undanfarið sitji við þessa umræðu og geti þá komið í andsvör við þingmenn og við fengið svör við ýmsum spurningum sem vaknað hafa við vinnslu málsins.

Ég þakka kærlega fyrir að forseti Alþingis skuli hafa tekið svona jákvætt (Forseti hringir.) í beiðnina og ég ítreka það sem fram kom að ég tel að það sé eiginlega ekki hægt að fara fram á að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefji ræðu sína fyrr en ráðherrann er kominn í salinn.