139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:56]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp hefur verið til umræðu í viðskiptanefnd síðan haustið 2009, í tæplega tvö ár. Við höfum rætt mjög ítarlega á vettvangi nefndarinnar um hvernig haga beri þessum málum. Við höfum núna komist að þeirri niðurstöðu að frumvarpinu beri að haga með þeim hætti eins og það kemur frá nefndinni, sem er mjög breytt frá því sem það kom frá ráðherra, um að greiða beri hraðar inn, skilgreiningu á innstæðum hefur verið breytt, iðgjaldaprósentutölunni hefur verið breytt o.s.frv. En það sem skortir alltaf á hjá gagnrýnendum þessa frumvarps, gagnrýnendum þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á vettvangi meiri hluta viðskiptanefndar, er til hvaða lausnar beri að grípa.

Við skulum gera eitthvað annað, það verður miklu betra, við getum hins vegar ekki alveg sagt ykkur frá því hvað það er — svona mátti skilja orð hv. þingmanns — eða við skulum fara aftur til Evrópu og reyna að fá betri lausn, fara til Evrópu og segja: Eruð þið til í að taka ábyrgð á okkar bankakerfi? Við treystum okkur ekki til að búa til okkar eigin innstæðutryggingarsjóð. (Gripið fram í.) Er það raunhæft? Segjum svo að þetta gerist, hvað vill hv. þingmaður gera þangað til? Þingmaðurinn hefur ekki enn svarað því. Er hann hrifinn af þeirri lausn sem við búum við í dag, um ríkisábyrgð á öllum innstæðum, með engum takmörkunum (PHB: Það er ekki rétt.) og engu þaki? Á það að vera á öllum innstæðum, bæði innstæðum fyrirtækja og heimilanna og einstaklinganna og allra, ekkert þak? Er það valkosturinn sem við búum við?

Nei, við reynum þess vegna að ramma frekar inn hvað beri að tryggja. Við reynum að fá bankakerfið til að borga hraðar inn í sjóðinn til að við stöndum eftir með sterkari sjóð. Við gerum skýrari mörk á því að við viljum fá sterkari sjóð en farið er út í á vettvangi Evrópusambandsins vegna þess að við viljum gera betur. Við viljum tryggja hinn almenna innstæðueiganda en við viljum ekki tryggja alla þá fjármuni sem liggja inni í bankakerfinu í dag, sem eru bæði í eigu einstaklinga og lögaðila.