139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:02]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að lokamálsliður 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins sé afar mikilvægur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sjóðurinn nýtur ekki ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum í skilningi laga um ríkisábyrgðir …“

Samkvæmt því, verði frumvarpið að lögum, er alveg morgunljóst og í gadda slegið að það er ekki ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Hann er sjálfseignarstofnun sem ber ábyrgð á skuldbindingum sínum en ekki íslenska ríkið. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að fá það ákvæði inn í frumvarpið sem ekki var þar fyrir. Þess vegna tók ég mig til og hrósaði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að breyta frumvarpinu hvað þetta varðar. Menn verða að eiga það sem þeir eiga og það má hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eiga að hann féllst á að þessi breyting yrði gerð á frumvarpinu eftir mikla baráttu okkar sjálfstæðismanna.

Hitt er annað mál að ótti hv. þm. Péturs H. Blöndals, varðandi efni tilskipunarinnar sem hér er verið að innleiða í íslenskan rétt, er algjörlega réttmætur vegna þess að það er grundvallarmunur á orðalagi tilskipunar 94/19/EB sem núgildandi lög um innstæðutryggingar byggja á og orðalagi hinnar nýju tilskipunar sem ekki hefur verið tekin upp í EES-samninginn en frumvarpið byggir á sem er að ég hygg nr. 2009/14/EB. Eins og hv. þingmaður nefndi er gengið miklu lengra í að leggja skyldur á ríkin til að ábyrgjast að í sjóðunum séu nægir fjármunir til að standa undir þeirri vernd sem að er stefnt. Það er auðvitað ein af þeim röksemdum sem halda má á lofti gegn samþykkt þessa frumvarps. Áhyggjur (Forseti hringir.) þingmannsins eru réttmætar að því leyti.