139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:06]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á að Eftirlitsstofnun EFTA eða Evrópusambandið gerði heldur aldrei neinar athugasemdir við innleiðingu fyrri tilskipunar, sem Icesave-deilan snýst öll um, þegar hún var innleidd í íslenskan rétt. Aldrei voru gerðar neinar athugasemdir við þá innleiðingu. Túlkun á þeirri tilskipun og efni hennar skýrir kannski hvers vegna sú þjóð sem hikaði ekki við að beita bandalagsþjóð sína hryðjuverkalögum treystir sér ekki til þess að draga íslenska ríkið eða íslenska tryggingarsjóðinn fyrir dómstóla í Icesave-málinu. Það er vitað að þeir hafa ekkert „case“ eins og sagt er.

Ég tel að sú yfirlýsing sem fram kemur í 1. mgr. 3. gr. hafi mikla þýðingu. Hún gildir að landsrétti. Ef til þess kemur að fjármálafyrirtæki fari á hausinn og ekki er nægur sjóður í tryggingarsjóðnum til þess að standa undir þeim innstæðum sem í hinum fallna banka eru tel ég að af ákvæðinu leiði að bara verði greiddir út úr tryggingarsjóðnum þeir fjármunir sem þar eru og annað muni tapast. Þá kæmi upp deila um hvort tilskipunin gengi framar ákvæðum frumvarpsins, verði það að lögum. Ég tel svo ekki vera. Ég tel að ákvæði landsréttarins gangi lengra og eigi að tryggja stöðu okkar en um það kann að verða mikill ágreiningur eins og hv. þingmaður nefnir. Í því felst auðvitað veruleg hætta þegar kemur að samþykkt þessa máls.