139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er of langt fyrir andsvar og ég vonast til að geta átt fleiri orðaskipti við ráðherrann í umræðunni sem væntanlega fer fram hér í dag. Ég vil spyrja ráðherrann um nokkra hluti.

Í fyrsta lagi segir ráðherrann að hann hafi átt fundi og við vitum að hann hefur farið mikið til Brussel til að ræða þessi mál. Það sem ég vildi fá að vita er svar við spurningunni: Hver var málflutningur ráðherrans? Nú er það öllum ljóst sem að þessu máli koma að þetta kerfi hentar illa alls staðar, en er þó miklu skárra í stórum löndum og fjölmennum, en alls ekki í litlum löndum. Nú hafa menn talað mikið um sveigjanleika Evrópusambandsins. Hver var krafa ráðherrans? Það er alveg augljóst að þetta hentar ekki íslenskum aðstæðum. Hvað lagði ráðherrann upp með í því?

Síðan númer tvö: Úr því að hæstv. ráðherra fór í gegnum þessa umræðu, af hverju var verið að breyta orðalaginu í tilskipuninni hjá Evrópusambandinu um það hvernig á að koma þessu kerfi upp? Fulltrúar meiri hlutans hafa túlkað þetta þannig að núna sé það skylda ríkisvaldsins að fjármagna tryggingarsjóðinn sem er skýrara en í fyrri tilskipun sem gekk bara út á að setja upp innstæðutryggingakerfi. Það er lítill munur á því og ríkisábyrgð, þ.e. nýja orðalaginu. Það væri gott að fá svör ráðherrans við því af hverju þessu var breytt.

Í síðasta lagi spyr ég um orð hæstv. ráðherra um að það séu litlar líkur á kerfishruni. Nú eru menn allt í einu farnir að skilgreina kerfishrun sem hrun eins af bönkunum. Þýðir það að ríkisstjórnin sé hætt við (Forseti hringir.) fyrningarleiðina? Það hefur verið upplýst í hv. viðskiptanefnd að (Forseti hringir.) fyrningarleiðin mundi þýða að Landsbankinn riðaði til falls. Það upplýsti bankastjóri Landsbankans.