139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum Pétri Blöndal fyrir ágæta ræðu og ég sé að við erum sammála um margt í þessu máli.

Það er eitt sem ég tók alla vega ekki eftir að þingmaðurinn ræddi um og ég hef töluverðar áhyggjur af og það er að verið sé að venja fjármálakerfið á það að hægt sé að ríkisvæða tap og skella því yfir á skattgreiðendur.

Við sem höfum staðið í því að ala upp börn höfum áttað okkur á því, vonandi flest, að það er barninu ekki endilega fyrir bestu að við björgum því alltaf úr öllum þeim vandræðum sem það kann að koma sér í. Börn þurfa að læra að gjörðir þeirra hafa afleiðingar. Ef foreldrarnir koma alltaf og kaupa krakkann úr klípunni með einhverjum hætti er það eiginlega ávísun á að krakkinn lærir ekki af mistökum sínum og heldur áfram að gera þau. Ég hef áhyggjur af þessu varðandi fjármálakerfið, ekki endilega bara á Íslandi heldur í heiminum. Þetta tengist líka því að minni bankarnir fara frekar á hausinn en stærri bönkunum er bjargað. Þeir verða hlutfallslega stærri á markaði sem er eiginlega þvert á það sem við ætluðum að gera eftir hrun, við ætluðum að reyna að dreifa áhættunni. Þess í stað erum við að auka hana og flestir bankarnir, 90% banka á Íslandi eru í raun of stórir til þess að mega falla. Er ríkið þá ekki að gefa þau skilaboð að það muni alltaf hlaupa undir bagga með bönkunum og ríkisvæða tapið?