139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta svar. Mig langar aðeins að halda áfram á þessum nótum og kannski tengja þetta falli okkar 2008 og fjármálakerfinu hér þar sem stjórnvöld stigu fram og ábyrgðust allar innstæður hér á landi. Í kjölfarið voru neyðarlögin sett sem settu innstæður í forgang og allir innstæðueigendur hér á landi fengu innstæður sínar greiddar.

Við fengum svo að vita það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þetta hafði allt verið reiknað út í maí árið 2008, að þá hefði verið gerð úttekt á hversu margir eða mörg prósent fengju greitt miðað við mismunandi tryggingar á innstæðum. Þar kom í ljós að hefðu stjórnvöld bara tryggt 10 milljónir hjá hverjum aðila hefðu langflestir einstaklingar fengið allt sitt tryggt.

Mig langar að spyrja þingmanninn um skoðun hans á þessari gjörð, að tryggja allar innstæður hér við hrunið.