139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það, vegna þess að ég hef átt mjög gott samstarf á vettvangi viðskiptanefndar um þetta mál, að ég er ekki að gera lítið úr þeim málflutningi sem andstæðingarnir hafa flutt fram í nefndarálitum sínum, og ég biðst afsökunar ef það hefur verið misskilið. Ég er ósammála þeim málflutningi en það hefur kannski borið á því í andsvörum í dag að menn hafa kannski ekki verið nógu málefnalegir í þeim. En á vettvangi nefndarinnar og í þeim nefndarálitum sem komið hafa fram hafa aðilar verið mjög málefnalegir og það vil ég ítreka.

Ég vil segja í því sambandi að ég er ósammála þeim hugmyndum sem þar hafa komið fram. Þó vil ég segja, og það kom fram í ræðu minni, að ég er mjög fylgjandi þeirri hugmynd sem velt er upp í fleiri en einu minnihlutaáliti um að leita eftir einhvers konar endurtryggingarsamstarfi eða samstarfi á miklu stærri grundvelli til að styrkja innstæðutryggingahugsunina og þá stöðu sem við erum í í íslensku bankakerfi. Það eru mjög góðar tillögur. Ég hef verið að benda á að sá valkostur er ekki í boði fyrir okkur til skemmri tíma litið og þess vegna verðum við að horfa til þess hvernig við getum stutt við innstæðutryggingakerfið.

Ég tel að það sé vel íhugandi að hafa forgang innstæðna við gjaldþrot varanlegan. En ég var bara að velta upp þeim punkti að ef við færum þá leið þyrftum við að skoða vandlega hvernig bankarnir munu fjármagna sig til framtíðar.

Ég ítreka þá skoðun mína að mér finnst það vel athugandi, og það mundi vera góður valkostur fyrir íslenskt bankakerfi, að hér yrðu fleiri en minni bankar. Þá mundum við losna við þann kerfisvanda sem við búum við að einhverju leyti. Ég ítreka það hins vegar að stærri bankar eiga auðveldara með að vera hagkvæmir og þess vegna þurfum við að athuga: Er það okkur til hagsbóta að hafa of marga minni banka þegar það gæti hugsanlega verið betra að hafa stærri banka sem munu ekki þurfa að beita jafnmiklum vaxtamun til að ná endum saman?