139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:49]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í utandagskrárumræðu fyrr í dag er samhljómur meðal þingmanna um að fram undan er endurskoðun á bankakerfinu, hinu íslenska, þar sem margt er undir og margt ber að skoða. Liður í því að við getum haft hér sterkt bankakerfi til lengri tíma litið er að til staðar sé innstæðutryggingarsjóður. Þetta frumvarp, sem vonandi verður samþykkt á Alþingi á vorþingi, er að búa til innstæðutryggingarsjóð sem getur lifað til frambúðar því að sá gamli er gjaldþrota og við getum ekki búið við óbreytt kerfi.

Smátt og smátt skulum við byggja upp innstæðutryggingarsjóð í þessu landi í smáum skrefum en á næstu árum munum við eiga öflugan sjóð sem vonandi getur tekið við falli eins banka eða fleiri. En það er alveg ljóst að ef við ætlum að horfa á hinn samevrópska tryggingasjóð erum við heldur fýsilegri kostur til samstarfs ef við höfum einhvern innstæðutryggingarsjóð sjálf sem getur þá farið í samstarf við þann sjóð.