139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Við tökum nú aftur til við að ræða 6. dagskrármálið, Stjórn vatnamála. Það er 3. umr. og ég hygg að það sé kannski þriðja atrenna að þeirri umræðu.

Þess var saknað hér í dag, og sú sem hér stendur var ekki ein um að hafa orð á því, að hv. formaður umhverfisnefndar væri ekki viðstaddur umræðuna þegar við ræddum það form og hvernig lagðar eru fyrir Alþingi tillögur og frumvörp til innleiðingar á Evróputilskipunum og hverju það sætir ef Alþingi afgreiðir ekki slík mál innan einhvers tiltekins tímaramma. Það kom fram hér að við töldum að við hefðum ekki fengið nægar skýringar á þeirri skyndilegu tímapressu sem komin var í málið. Nú stendur það allt til bóta því að hv. formaður umhverfisnefndar er hér og ætti að geta svarað þeim spurningum sem fram voru settar um þetta efni, þ.e. hvaða skýringar hann kann á því.

Frú forseti. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni í dag að frumvarpið hefði tekið verulegum breytingum á milli umræðna og þær væru flestar til bóta. Hins vegar, eins og fram hefur komið, tel ég þær ekki nægjanlegar og hef þess vegna lagt fram breytingartillögu sem ég hef gert grein fyrir og er að finna á sérstöku þingskjali og ég hvet þingheim til þess að kynna sér það og styðja og koma í veg fyrir að lögfest verði í lögbók Íslands þetta orð „hlot“ og legg til að um það verði haft orðið „heild“.

Ég hef einnig við 2. umr. lýst þeirri ánægju sem ég hef haft af leiðsögn tveggja merkra málvísindamanna og áhugamanna um íslenskt mál sem sæti eiga í hv. umhverfisnefnd, hv. þingmanna Marðar Árnasonar og Ólínu Þorvarðardóttur. Það má margt læra í hv. umhverfisnefnd, ekki bara um umhverfismál heldur líka um íslenskt mál. Hlotið er eitt en annað sem ég hef gert athugasemdir við og hef nokkrar áhyggjur af er að í frumvarpinu, eins og það nú stendur, er enn að finna öfugmæli í 14. gr. og í orðskýringum þar sem fjallað er um forgangsefni.

Því geri ég þetta að umtalsefni, frú forseti, að ég tel að enda þótt stjórnsýslan hafi tamið sér tiltekið orðfæri sé ekki einboðið að lögfesta það. Það er klárt að stjórnsýslan hefur notað þetta „hlot“ og jafnvel „vatnshlot“ frá árinu 2004, en stjórnsýslan hefur líka á undanförnum árum notað orðið „forgangsefni“ um þrávirk og hættuleg efni. Samkvæmt málskilningi mínum eru forgangsefni þau efni sem forgang eiga að hafa og setja á í fyrirrúm. Hér er þessu algjörlega öfugt farið, þetta eru, eins og einn hv. þingmaður nefndi hér í dag, þvert á móti ekki forgangsefni heldur óþverri sem setja þarf í forgang að því leyti að það þarf að eyða þeim.

Því tek ég þetta dæmi, frú forseti, sem rökstuðning við máli mínu varðandi breytingartillögu mína að það eru ekki rök að stjórnsýslan sem slík hafi notað tiltekið orð í tiltekinn tíma.