139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Um þetta mál er það að segja að það var flutt í haust, á haustþingi og hafði reyndar komið inn áður, á síðasta þingi. Hins vegar höfðu íslensk stjórnvöld, framkvæmdarvaldið hér, verið slök við að koma þessu máli í þann búning sem við hæfi var. Það er fyrst og fremst byggt á einni tilskipun, vatnatilskipuninni frægu og reyndar öðrum líka, og hefur verið óánægja með það í höfuðstöðvum þess bandalags sem við erum hluti af í þessu efni.

Um þá óánægju er svo sem ekkert að segja. Við höfum tekið þann tíma sem við þurftum í þetta mál. Þetta hefur verið helsta viðfangsefni umhverfisnefndar, eins og hv. þingmaður veit kannski af, í tvo og hálfan mánuð, í mars, febrúar og hálfan janúarmánuð. Við höfum farið vel í gegnum málið og þurft á öllum þessum tíma að halda en nú er það fullþroskað (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður þingmenn í hliðarsal um að hafa hljótt, gefa þingmanni hljóð.)

Ég held að það batni ekki verulega við frekari umfjöllun. Þannig að það er svo í dag að það verður útrætt 31. mars og ég tel það bara alveg ágætt. Þó að atkvæði verði hugsanlega greidd um það síðar hefur þingið í raun og veru fjallað um málið og komið að lokum.