139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

uppbygging á Vestfjarðavegi.

439. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er hv. þingmaður að bera saman algjörlega ósambærilega hluti. Það sem við erum að ræða um í þessu frumvarpi er það hvort fara eigi með veginn á láglendi út Þorskafjörðinn, þvera Gufufjörð og Djúpafjörð og koma síðan að landi við Melanes. Það sem um er að ræða á kaflanum frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði er láglendisvegur. Ágreiningurinn gæti hins vegar snúist nákvæmlega um vegstæðið á þessari leið en ágreiningur er ekki uppi um það hvort þar eigi að fara upp um fjöll og firnindi og gera veginn þannig úr garði að hann nýtist ekki íbúunum.

Það er ekkert launungarmál hver mín afstaða í sambandi við vegstæðið þar er, ég tel skynsamlegast að þvera þar Kjálkafjörð eins og áform eru uppi um og Mjóafjörð sömuleiðis. Verði hins vegar niðurstaðan sú að fara ekki þá leið er það bara svo. Ég tel að ekki séu sambærilegir hagsmunir í húfi þar.

Hér er hins vegar um að ræða grundvallaratriði, einfaldlega það hvort menn treysti sér til að fara í vegagerð í Gufudalssveitinni sem mun leysa úr brýnasta vandamáli sem við er að glíma varðandi vegamál í landinu um þessar mundir sem er það að rjúfa einangrun Vestur-Barðastrandarsýslu og búa til skaplegan veg sem hægt er að nota. Við erum komin inn á 21. öldina og það er ekki lengur hægt að bjóða fólki upp á að segja sem svo: Ja, við skulum bara fara einhvern veginn í þetta mál, við skulum skoða málin.

Við erum búin að vera að skoða þessi mál, fjármunirnir hafa legið fyrir og nú er bara kominn tími til þess að taka ákvörðun.