139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

uppbygging á Vestfjarðavegi.

439. mál
[18:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Orðaskipti í andsvörum áðan voru mjög fróðleg. Þau benda til þess að hv. flutningsmenn telja sig geta valið úr á því ferli sem af stað fer með umhverfismati um framkvæmdir sem teljast umhverfismatsskyldar samkvæmt þeim rétti sem við höfum byggt okkur upp á um það bil 10 árum. Í raun og veru er enn margt eftir í þeim umhverfisrétti sem við erum smám saman að koma okkur upp á Íslandi með evrópskri aðstoð því að Evrópumenn, hvað sem um þá má segja, eru — ég segi nú ekki ljósárum á undan okkur en nokkrum þingmannaleiðum í þessum efni.

Þeir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson sem lifa á 21. öldinni telja við hæfi að nema úr gildi umhverfismat sem þeir eru óánægðir með en eru tilbúnir að bíða eftir umhverfismati í öðru efni sem þeir vonast til að verði þeim að skapi. Ég spurði ekki um þennan vegarspotta vegna þess að ég ætti von á því að hann lenti illa úti í umhverfismatinu heldur benti ég á það grundvallaratriði að hv. þingmenn — það liggur við að ég segi: leyfa sér að — koma í ræðustól Alþingis á 21. öld og leggja til að lög verði afnumin og úrskurður verði ógiltur með ofbeldi meiri hluta þingsins vegna þess að svo væri ef þetta gengi eftir.

Málið er svona, forseti: Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra á þeim tíma, tók pólitíska ákvörðun og hafði töluvert svigrúm til að taka ákvörðun af því tagi sem hún gerði. Svo mikið svigrúm kann að vera galli í lögunum um umhverfismat. Það reyndist t.d. vera þegar annar, hæstv. núverandi, umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tók ákvörðun þar sem hún taldi sig hafa svigrúm til að stefna í dóm tilteknum hlutum við mikil hróp og mikinn æsing þeirra sömu hv. þingmanna og flytja einmitt þetta frumvarp og flokksfélaga þeirra sem töluðu upp og niður, fram og aftur, út og suður um það mál. Þeim þykir hins vegar allt í lagi að Jónína Bjartmarz, sem reyndar var ágætur umhverfisráðherra þann stutta tíma sem hún var það, skyldi hafa tekið ákvörðun og lent í ógöngum út af henni af ekki verra tagi en hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir lenti í með Flóahrepp um daginn vegna þess að ráðherrann var beittur miklum pólitískum þrýstingi, sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kannast ágætlega við vegna þess að hann hefur setið hér lengur en Jónína Bjartmarz og lengur en Mörður Árnason sem hér talar, og er samgróinn því valdakerfi og þeirri hugmyndafræði sem hefur ríkt á Íslandi undanfarna áratugi og var sá grunnur sem hrunið byggði á, sú bjargbrún sem Ísland fór fram af haustið 2008 með afleiðingum sem enn eru ekki komnar í ljós.

Það er þetta virðingarleysi fyrir reglum, samfélaginu og aðilum þess og samskiptum þeirra sem lýsir sér í þessu frumvarpi og var undirstaða hrunsins sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vakti meira að segja yfir sem ráðherra í ríkisstjórn á sínum tíma.

Það sem gerðist svo var að Hæstiréttur felldi úr gildi ákvörðun ráðherrans, Jónínu Bjartmarz, sem hún hafði tekið undir pólitískum þrýstingi, vegna þess að hún fór yfir strikið. Það kom í ljós að sú leið sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hvatti til allan tímann að yrði farin reyndist ófær. Hæstiréttur felldi hana úr gildi og þá standa menn uppi eins og asnar, ég segi það bara eins og það er, og horfa fram á að allur þessi tími var til einskis og allt það sem mönnum var talin trú um fyrir vestan að gæti gengið upp með þessum hætti reyndist rangt. Maður spyr sig: Hver ber ábyrgðina á því? Er það Hæstiréttur? Eru það þeir sem gagnrýndu þessa ákvörðun á sínum tíma og það plan að fara í gegnum Teigsskóg? Er það þannig? Nei, forseti, það er ekki þannig. Þeir sem bera einmitt ábyrgð á þessari stöðu eru Einar K. Guðfinnsson — ég ætla ekki að bæta hv. þm. Ásbirni Óttarssyni við vegna þess að hann er nýkominn á þingið eða hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni — og fylgismenn hans sem völdu þá leið sem nú er lokuð og ófær, ekki vegna þess að þar sitji einhverjir lattelepjandi umhverfissinnar úr 101 heldur vegna þess að Hæstiréttur sjálfur kom í veg fyrir hana.

Þá spyr maður: Hvað er hægt að gera? Þá ætla ég ekki að segja hvað hefði verið hægt að gera í staðinn fyrir þessa vitleysu. Það eru nokkrir hlutir sem er hægt að gera. Það er hægt að fara í nýtt umhverfismat og láta reyna á það með þeim reglum sem um það giltu en sá kostur hefur ekki verið valinn og það væri hægt að reyna aðrar leiðir. Ég verð að hrósa hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að telja upp þrjár aðrar leiðir sem hægt væri að fara og auðvitað hafa þær verið kannaðar, það er ekki það. Þriðja leiðin er rakin í greinargerð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og félaga, það er leiðin um Hjallaháls og um Djúpafjörð að Grónesi og líka í Melanes sem er nefnt í greinargerðinni, og fjórða leiðin eru jarðgöng undir hálsinn og vegur yfir Ódrjúgsháls. Einu sinni fylgdu þeirri hugmynd önnur jarðgöng úr Gufufirði í Kollafjörð en sá þáttur er sennilega úti núna vegna framkvæmda Vegagerðarinnar þarna í grenndinni. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er ekki nógu heiðarlegur til þess að lýsa þeirri leið nógu vel heldur segir í greinargerðinni nokkuð groddalega að hún hafi verið slegin út af borðinu sakir kostnaðar. Staðreyndin er sú að þessi leið hefur aldrei verið rannsökuð til hlítar og Vegagerðin — ég veit ekki undir hvaða pólitíska þrýstingi hún var — sló hana út og breytti hugmyndinni, hún taldi að jarðgöngin stæðust ekki nema þau væru nánast við sjávarmál. Þessar leiðir ber hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, mér og öðrum áhugamönnum um samgöngur og náttúruverðmæti á sunnanverðum Vestfjörðum að athuga eða fá nýtt umhverfismat ef menn hafa áhuga á því. Það hefur ekki gerst, menn hafa ekki sýnt áhuga á því. Það væri fróðlegt að heyra hvers vegna það gengur ekki. Það er kannski vegna þess að menn treysta ekki þessari leið í nýtt umhverfismat. Menn telja að eini möguleikinn til að koma þessum vegi í gegn sé með því ofbeldi sem hér er lagt til í frumvarpi hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og félaga hans.

Þetta er svona þríeint frumvarp, það er þrennt sem vekur athygli í því. Í fyrsta lagi leggja þrír hv. þingmenn til að dómur Hæstaréttar sé sniðgenginn með því að fara yfir þá hindrun sem hann er með lögum, með því að ryðja Hæstarétti burtu. Þannig er það, forseti. Það vill svo skemmtilega til að nákvæmlega þessir sömu þrír þingmenn og félagar þeirra fjölmargir stóðu í þessum stól fram og aftur, nótt og dag, upp og niður, út og suður og gagnrýndu sniðgöngu Hæstaréttar í allt öðru máli þar sem raunar var ekki um dómsúrskurð Hæstaréttar að ræða heldur stjórnvaldsákvörðun þar sem Alþingi tók þann kost að lokum gegn vilja þeirra félaga að virða niðurstöðu Hæstaréttar — við munum hvaða mál þetta var — með því að setja ekki stjórnlagaþing í næsta mánuði sem kjörið var heldur skipa stjórnlagaráð. Fullkomin virðing borin fyrir niðurstöðu Hæstaréttar sem í það sinn var stjórnvaldsúrskurður. En þessir herramenn, þessir með geislabauginn, hinir heilögu, þessir þrír og félagar þeirra þurfa þegar eitthvað gengur ekki eins vel og þeir vilja að fá kjósendur sína til að klappa sig upp til að fela árangurinn sem þeir hafa ekki náð á 10, 15, 20 árunum í héraði sínu á sjálfum Vestfjörðum þar sem Einar K. Guðfinnsson er hinn mesti heimamaður allra heimamanna. Já, þá skal Hæstiréttur víkja. Þá skiptir Hæstiréttur ekki máli. Alveg eins og með umhverfismatið skiptir Hæstiréttur ekki máli nema þegar hægt er að nota hann sér til framdráttar í pólitískum tilgangi. Þetta er ömurleg frammistaða af hálfu þeirra hv. þingmanna Ásbjörns Óttarssonar, Einars K. Guðfinnssonar, félaga hans, og Gunnars Braga Sveinssonar, félaga þeirra í því ágæta kjördæmi sem um er að ræða.

Þetta með umhverfismatið, það er ekki spurning um eitt umhverfismat heldur grundvallarlöggjöf í þessum málaflokki. Það sem þeir ætla að gera, þessir herramenn, hinir heilögu með geislabauginn, hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson, er að rífa þá grundvallarlöggjöf upp með rótum og skapa það fordæmi að þegar meiri hluta á þingi líkar ekki sá árangur sem löggjöfin nær sé ekki um að ræða að breyta henni eða leggjast í rannsóknir á löggjöfinni og hvernig eigi að breyta henni heldur á ekki að taka mark á henni. Við samþykkjum bara lög og förum á jarðýtunni eða skriðdrekanum yfir þetta dót sem er fyrir okkur. Það er hugsunin, það eru hinir miklu kraftamenn í Norðvesturkjördæmi, forseti, sem hugsa svona. Þeir fá auðvitað klapp en ætli það klapp verði ekki frekar skammt því að þessi leið gengur auðvitað ekki. Það er ekki hægt að fara hana.

Það er ekki hægt að fara með þetta mál í gegnum þingið og það er ekki heldur hægt að fara með það í gegnum þann lagagrunn sem við höfum skapað okkur með bandalagsþjóðum okkar í Evrópu. Lögin um umhverfismatið eru ekki bara heimasmíðuð í okkar landi þó að auðvitað sé partur þeirra héðan heldur byggja þau á samkomulagi Evrópuþjóða. Af hverju er það samkomulag, forseti? Er það vegna þess að menn vilja falla fram og ekki standa í lappirnar o.s.frv.? Nei, það er vegna þess sem a.m.k. sjálfstæðismennirnir tveir ættu að geta skilið, sem fluttu frumvarpið, að við viljum hafa sömu reglur á sama markaðssvæði. Þetta er sumsé markaðshugsun. Ég sé að Einar K. Guðfinnsson strýkur sér í framan og er farinn að skilja að hann er á rangri braut í þessu miðað við þá hugmyndafræði sem að baki liggur. Eða hvað? Hvaða hugmyndafræði liggur að baki? Ég verð að segja að Sjálfstæðisflokkurinn er samsettur flokkur og þar er ein hugmyndafræði, hugmyndastraumur, sem ég ber svolitla virðingu fyrir og það er hugmyndafræði konservatívismans, íhaldsstefnunnar sjálfrar, hinnar gömlu íhaldsstefnu frá 19. öld. Það er ákveðinn sjarmi yfir henni ef hún kemur í hæfilegum skömmtum. En er hér um íhaldssemi að ræða? Mundu íhaldsmenn, konservatívir stjórnmálamenn, láta sér detta í hug að rífa í fyrsta lagi grundvallarlöggjöf upp með rótum og í öðru lagi að sniðganga sjálfan Hæstarétt? Nei, forseti. Þessir menn eru ekki einu sinni konservatívir gæjar, þeir hv. þingmenn sem standa á bak við þetta frumvarp. Hugmyndafræðin sem liggur í frumvarpinu minnir því miður á aðra hugmyndastrauma á hægri vængnum, mun óvirðulegri hugmyndastrauma en íhaldsstefnuna frá upphafi 19. aldar og æ síðan. Það er á grunni þeirra hugmyndastrauma sem þriðji þátturinn í þessu frumvarpi myndast, auk sniðgöngu Hæstaréttar og upprót grundvallarlöggjafar Íslendinga í umhverfismálum. Það er frammistaða þeirra í héraði.

Þetta frumvarp er ekki fyrir okkur hér í salnum, forseti. Þetta frumvarp er smíðað handa fólkinu á sunnanverðum Vestfjörðum og á að draga það áfram í hasar og þeirri trú að eitthvað sé að gerast í þeirra málum með þessu dæmi. En svo er ekki. Þetta frumvarp er nánast óþinglegt. Það er bara þannig og ég hef ekki haft ráðrúm til að vekja athygli á því og biðja um rannsókn á því. Þetta frumvarp gerir ekkert gagn. Það eyðileggur, spillir og sundrar í staðinn fyrir að draga menn saman. En það hjálpar hv. þingmönnum Einari K. Guðfinnssyni, Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni til skamms tíma að efla sitt eigið fylgi með því að búa til þúsund manna undirskriftasöfnun á Vestfjörðum, halda þar fundi, samþykkja ályktanir með níði um aðra þingmenn og þá sem láta sér annt um náttúruverðmæti (Forseti hringir.) á Vestfjörðum og samgöngumöguleika fólksins þar. Það er lýðskrumið á bak við þetta, forseti, sem er allra verst. Það er lýðskrum hv. þingmanna (Forseti hringir.) Einars K. Guðfinnssonar, Ásbjörns Óttarssonar og Gunnars Braga Sveinssonar sem er verst við þetta vonda frumvarp.