139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég sé mig knúna til að koma hingað aftur upp í ræðu eftir að hafa hlýtt á ræðu þingmannsins Magnúsar Orra Schrams þar sem hann var að fjalla um tillögu mína og ég vildi vissulega geta svarað honum í lengra máli en ég kem að í andsvari.

Það mál sem við ræðum finnst mér eitt stærsta málið sem er í þinginu núna og mér finnst mjög slæmt að sjá hve fáir þingmenn sýna því áhuga. Hjá meiri hlutanum finnst mér þetta mál vera hálfmunaðarlaust. Undir álit meiri hlutans skrifa fimm þingmenn en aðeins einn af þeim er í viðskiptanefnd, þingmaðurinn. Skúli Helgason, sem mælti fyrir nefndarálitinu en viðurkenndi að þetta væri eiginlega glatað mál. Eini þingmaðurinn, fyrir utan kannski ráðherra viðskiptamála, sem hefur eitthvað barist fyrir þessu máli, er Magnús Orri Schram sem ég kom eiginlega upp til að svara en mér sýndist vera farinn í dag.

Ég votta honum samúð mína fyrir að þurfa að berjast fyrir þessu vonlausa máli því að hann hefur ekki mjög góðan málstað að verja. Hann sagði hér fyrr í dag að þeir sem hefðu barist gegn þessu máli hefðu ekkert fram að færa eða bentu ekki á neinar lausnir í staðinn. Ég vildi andmæla þessu. Í nefndaráliti mínu er á bls. 3 kafli sem heitir einmitt „Lausn til framtíðar á innstæðutryggingum“. Ef þingmaðurinn hefði lesið aðeins lengra þá hefði hann væntanlega rekið augun í þessa millifyrirsögn sem er feitletruð.

Hér var svolítið fjallað um að afnema þyrfti ríkisábyrgð á innstæðum en þrjár síðustu ríkisstjórnir hafa gefið það út að ríkið tryggi allar innstæður. Þær yfirlýsingar hafa ekkert lagalegt gildi og eru því í raun orðin tóm þó að einhverjir kunni að trúa á þær. Þær virka að vissu leyti eins og innstæðutryggingarsjóður, þær veita falskt öryggi en á meðan fólk trúir á þær verður ekki áhlaup bankanna eða alla vega eru minni líkur á því. Þetta finnst mér vera leikur að eldinum. Það er verið að venja fólk við þá hugsun að heimurinn sé hættulaus og fólk þurfi ekki að hugsa um sín mál, það komi alltaf einhver og bjargi því. En ég ætla aðeins að fjalla um þær lausnir sem mér finnst hafa komið fram í umræðunni og ég hef lagt til í nefndaráliti mínu.

Eitt sem ég sá ekki fyrir, en Pétur H. Blöndal þingmaður hefur talað fyrir, er að byggja á gömlu tilskipuninni frá 1994 sem er enn í gildi og vinna eftir henni vegna þess að sú tilskipun sem við erum að innleiða hefur ekki enn verið tekin inn í EES-samninginn. Þá hefur einmitt verið bent á að við höfum lítil áhrif þar á. En það er bara ekki alveg rétt. Hér í þinginu erum við að temja okkur ný vinnubrögð og í dag sátum við í viðskiptanefnd fund þar sem við í fyrsta sinn nýttum okkur þennan sex vikna glugga til að skoða mál og gera athugasemdir við þau. Við gerðum reyndar í það skipti — það var mál sem fjallaði um einkaleyfi á lyfjum fyrir börn — ekki neinar athugasemdir en ég er alveg viss um að viðskiptanefnd mundi gera athugasemdir þegar þessi tilskipun kemur og við fáum þennan sex vikna glugga. Þá mundum við svo sannarlega flagga og segja: Þetta hentar okkur ekki. Það hentar okkur ekki að tryggja innstæður upp að 100 þús. evrum, við getum ekki gert það með okkar bankakerfi. Ég er því ekki sammála því að við þurfum endilega að ganga í Evrópusambandið til að geta haft einhver áhrif á þá löggjöf sem kemur í gegnum EES-samninginn. Við þurfum bara að fara að vinna vinnuna okkar og vinna þetta með skipulegum hætti. Það er einmitt það sem Alþingi er að reyna að fara að gera.

Þær leiðir sem ég lagði til í nefndaráliti mínu voru í raun og veru tvær. Ég er með frávísunartillögu í nefndaráliti mínu til ríkisstjórnarinnar, henni er falið að leita samstarfs við stærri og burðugri tryggingarsjóð á erlendri grund. Þetta höfum við rætt og það ætti ekki að hafa farið fram hjá þingmanninum Magnúsi Orra Schram. Við höfum einnig rætt þetta töluvert í nefndinni og við höfum rætt þetta við starfsmenn ráðuneytisins og það er eins og þeir fari alltaf undan í flæmingi, að þetta sé feimnismál. Ég lít ekki svo á, ég lít á þetta sem viðskiptahugmynd. Tryggingar eru af öllum gerðum, það er hægt að tryggja nánast allt í heiminum. Ef mig langar að stökkva út úr fallhlíf og vil tryggja mig fyrir því þá kostar það kannski meira en ef ég ætla að fara í strætó upp í Breiðholt. Ef til vill þyrftum við að greiða hærra iðgjald en ekkert er því til fyrirstöðu að við getum keypt okkur tryggingu. Það þarf bara að ganga í það mál og láta á það reyna. Þetta hefur ekki verið reynt.

Hitt sem er mín tillaga — þetta er ekki mín hugmynd heldur hef ég heyrt af þessu frá ýmsum, bæði reyndum bankamönnum og í greinum um innstæðutryggingakerfi — er að hafa forganginn á innstæðum varanlegan. Það hafa einhverjir bent á að erfiðara yrði fyrir bankana að fjármagna sig og þá er kannski lausnin á því að skilja milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka þannig að viðskiptabankar yrðu kannski bara góðir og gamaldags og fjármögnuðu sig meira með innstæðum — eins og Icesave var reyndar að gera, við skyldum kannski ekki fara þannig með það fé — og fjárfestingarbankar væru allt aðrar stofnanir sem lytu annars konar lögmálum.

Það er ýmislegt í þess máli sem mér finnst stórhættulegt og lífið er stórhættulegt. Við verðum að átta okkur á því að þeir sem eiga peninga verða að hugsa um hvað þeir eru að gera þegar þeir leggja peningana sína í banka. Við erum með gildandi tryggingarsjóð þótt hann sé gjaldþrota þar sem hver innstæðueigandi er með tryggingu upp á rúmar 20 þúsund evrur. Á móti erum við líka með yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um að ríkið ábyrgist allar innstæður. Ég vil þá yfirlýsingu burt þannig að það sé alveg á hreinu. Ég held að við getum ekki haldið úti, hvorki á Íslandi né í heiminum, 2007-bankakerfi þar sem allt er auðvelt og þeir sem eiga peninga þurfi ekki að hugsa og þurfi ekki að dreifa ábyrgð. Fólk verður líka að átta sig á því hvað gerist þegar það leggur peninga inn í banka. Bankinn setur ekki peningana þína í eitthvert bankahólf, hann lánar þá út. Fólk þarf að fara að velta því fyrir sér hver útlánastefna þess fjármálafyrirtækis sé. Vil ég að mínum peningum sé varið með þessum hætti? Þetta er umræða sem ég held að sé mjög þarft að taka en þetta er viðhorfsbreyting sem sennilega mun eiga sér stað á lengri tíma og það tekur tíma að breyta hugarfari.

Við megum ekki alltaf vera í hlutverki góða foreldrisins sem eyðileggur krakkana sína á dekri með því að forða þeim alltaf úr hættulegum aðstæðum. Bæði bankar og fjármagnseigendur verða að átta sig á því að ríkið getur ekki alltaf hlaupið undir bagga. Einhvern veginn verður að landa þessu innstæðutryggingarsjóðsmáli en það er algerlega óásættanlegt að gera það með þessum hætti. Mér fyndist farsælast að við reyndum að koma okkur í viðskiptasamstarf — við erum ekki að fara fram til að betla — við stærri sjóð. Þær eru úti um allt. Það þarf bara að fara og banka á dyrnar hjá þeim og spyrja: Hvað kostar að vera með hjá ykkur?