139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. Magnús Orra Schram um málefnaleg rök fyrir því er varðar þær breytingar á tilskipun Evrópusambandsins sem við eigum við hér. Þetta er ekki einu sinni EES-mál því að það er ekki orðið gilt í EES-samningnum að hækka innstæðutryggingar úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur. Sömuleiðis bað ég hann um málefnaleg rök fyrir því af hverju verið væri að herða orðalagið sem snýr að skyldu viðkomandi ríkja. Til upplýsingar er það túlkun meiri hlutans að ríkinu beri að tryggja að viðkomandi innstæðutryggingarsjóður sé fjármagnaður. Það þýðir með öðrum orðum að ef við yrðum fyrir einhvers konar áfalli, það þyrfti ekki að vera stórt, væri sama hvaða áfall það væri, innstæðutryggingarsjóðurinn þyrfti að taka lán og það lægi þá fyrir að ríkið ætti að sjá til þess að sjóðurinn hefði burði til að taka lánið og það gerir ríkissjóður annaðhvort með því að lána sjálfur eða með því að ábyrgjast lán.

Það er augljóst að þetta er komið út af Icesave-deilu okkar Íslendinga og því máli öllu saman. Þarna er talin þörf á, sem er áhugavert í heildarsamhengi hlutanna, að festa frekar þá skyldu sem sumar þjóðir telja að við höfum núna í deilumáli okkar.

Ef við tölum aðeins um eðli málsins held ég að við séum sammála um að við viljum helst vera nokkurn veginn örugg um peningana okkar í bankanum. Gallinn er bara sá að bankar eru eins og önnur fyrirtæki, þeir geta farið á hausinn og kannski sérstaklega núna þegar við erum ekki búin að vinna okkur út úr þeim vanda, og þá er ég að tala um hinn vestræna heim, sem við erum í núna og þá er ansi mikil hætta á að þeir fari á hausinn.

Spurningin er: Hvað viljum við ábyrgjast mikið? 20 þús. evrur eins og er í lögunum núna eru um 3 millj. kr. en þegar við förum upp í 100 þús. evrur er verið að tala um 15–16 millj. kr. á hvern reikning. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ef einhver á innstæður upp á 3 millj. kr. er mjög eðlilegt að reyna að koma til móts við það, en ég sé ekki málefnalegu rökin fyrir því að hækka þetta eins og raun ber vitni.

Vandinn er sá að framkvæmdarvaldið hefur ekki sýnt neinn vilja til að leysa þetta mál. Það er augljóst eins og við erum búin að fara margoft yfir að þetta hentar ekki fyrir íslenskar aðstæður. Í umræðunni hefur verið upplýst að hæstv. ráðherrar hafa ekki gert neitt við því eða bent á það sem öllum er ljóst sem eitthvað fylgjast með í Evrópu, að við Íslendingar getum ekki staðið á bak við svona innstæðukerfi og þess vegna þarf að nálgast það með öðrum hætti. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir ræddi um samstarf við aðra sjóði. Nú getur vel verið að það sé ekki hægt en við vitum það ekki vegna þess að ekki er búið að kanna það.

Tíma hæstv. ráðherra væri örugglega betur varið í þetta mál en mörg önnur því að það er svo mikið undir. Ef hæstv. ráðherra hefði kannað hver viðbrögð Evrópusambandsins væru við því að finna aðrar leiðir fyrir okkur Íslendinga og það væri með lausnir svipaðar og í þeirri tilskipun sem er í gangi núna kæmi hann hingað og segði: Heyrið, Evrópusambandið ætlar að neyða okkur til að gera þetta þó að það séu augljós rök fyrir því að við getum það ekki. Eða hæstv. ráðherra kæmi hingað og segði. Ég er búinn að tala við flestalla sjóði í nágrannalöndunum eða kollega mína, ráðherrana, og það er ekki vilji fyrir því að vinna saman hvað þetta varðar. Þá mundum við alla vega vita það en við vitum það ekki núna vegna þess að það hefur ekki verið reynt.

Ég tek undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að mjög kaldhæðnislegt sé í þessu stóra máli hve lítinn áhuga hv. þingmenn hafa á því, ekki aðeins að þeir hafi tekið lítinn (Forseti hringir.) þátt í umræðunni heldur þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa tekið þátt í umræðunni þá er almenna reglan (Forseti hringir.) sú að þeir hlusta ekki á þær röksemdir sem fram koma og reyna því síður að koma með svör við þeim.