139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að skoða þetta svar rétt áðan og eftir að hafa skoðað það í fljótheitum varð niðurstaða mín sú að þetta þyrftum við að skoða betur. Ég hefði viljað að við færum yfir málið í hv. viðskiptanefnd og mun fara fram á það við formann nefndarinnar (Gripið fram í: … fjárlaganefnd.) af nokkrum ástæðum, m.a. þeim sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi þegar hún benti réttilega á að ekki hefði verið tekin nein ákvörðun um þetta á þeim stað þar sem ætti að taka ákvörðun um það.

En ég var síðan með fyrirspurn um ábyrgðir í bankakerfinu, fjárframlög, lán og ábyrgðir, og það var ekki minnst einu orði á þau dæmi í svarinu frekar en að talað væri um lán í tengslum við Saga Capital og VBS. Það er svolítið athyglisvert. Ég er búinn að vera með margar fyrirspurnir og svörin eru oft og tíðum út í hött. Þessi fyrirspurn er þess eðlis að hún er mjög nákvæm. Það er hv. þm. Kristján Júlíusson sem spyr. Hann veit líklega mikið um málið því að hún er mjög nákvæm og hann fær svar. Ég get ekki lesið annað úr svarinu en að þar sé staðfest að um ríkisábyrgð sé að ræða.

Ef það er núna svo, sem er einn þátturinn í þessu líka, að hv. alþingismenn þurfi alltaf að hafa svörin þegar þeir leggja fram spurningarnar og geti ekki lengur treyst því að menn segi satt og rétt frá þá erum við í mjög alvarlegri stöðu. Ég var sjálfur ráðherra. Ég las fyrir hvert einasta svar vegna þess að ég vissi að ég bar ábyrgð á því og oft og tíðum þurfti að fara mjög vel yfir það vegna þess að ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki og svörum. En það er eins og ráðherrar í núverandi ríkisstjórn telji það algjört (Forseti hringir.) aukaatriði.