139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og komið hefur fram hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem við fórum fram á að yrði við umræðuna yfirgefið svæðið og eins og kom fram hjá hv. þm. Eygló Harðardóttir þá ratar hæstv. ráðherra Árni Páll Árnason til Brussel, það er þekkt. Líka hefur komið fram, ef hann var að segja alla söguna, að hann var ekki að flytja okkar mál eins og við vorum sammála um og í rauninni flestir sem komu að því og fjölluðu um það. Nú gæti einhver sagt: Hví skyldum við gera það? Hér er klifað á því að við séum ekki í Evrópusambandinu og getum ekki haft áhrif. Norðmenn eru að stoppa þetta mál vegna þess að þeir gæta hagsmuna sinna. Þeir vilja að vísu fara í öfuga átt við okkur en þeir hika ekki við að gæta hagsmuna sinna. Ég veit það. Ég var formaður þingmannanefndar EFTA og ég gerði það líka sem ráðherra. Þá gætti maður hagsmuna landsins á þessum vettvangi.

Ég held að það sé góð hugmynd að fara fram á — ég geri það og ég veit að hv. þingmaður er mér sammála — að við fáum þetta mál á milli umræðna í nefnd. Ég held að það væri vel til fundið að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem er því miður farinn segði hvað honum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fór á milli og á hvað hann lagði áherslu. Ég hefði svo gjarnan viljað fá það í þingtíðindum. Við erum, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir benti á, skólabókardæmi um gallana í þessu kerfi og ættum að geta komið því áleiðis og bent á að það gangi ekki eins og lagt er upp með núna. Það er mjög alvarlegt ef hæstv. ráðherra er ekki að vinna með þeim hætti því að eins og kom margoft fram í umræðunni (Forseti hringir.) er ástæðan fyrir því að við vekjum athygli á þessu og erum að ræða það sú að þetta er svo stórt (Forseti hringir.) mál.