139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lýst því yfir hér og talið að ýmsar embættisfærslur ráðherra í núverandi ríkisstjórn réttlæti það að menn velti því fyrir sér hvort þeir sem þar sitja núna, þ.e. í núverandi hæstv. ríkisstjórn, eigi kannski meira erindi fyrir þann dóm en sá maður sem þangað hefur verið leiddur.

Ég hef ekki lesið það svar sem hv. þingmaður las upp en ég hlustaði á hann lesa upp úr svarinu. Hann spurði hvernig mér litist á. Ég verð að segja að mitt svar við þeirri spurningu er: Alveg skelfilega. Ég átta mig ekki á því hvernig hæstv. fjármálaráðherra dettur til hugar að senda slíkan texta frá sér. Það er engin ríkisábyrgð á öllum innstæðum í landinu. Það þarf að tilgreina það sérstaklega í lögum með mjög nákvæmum hætti. Það hefur aldrei verið gert. Ég botna ekkert í því hvað hér er á ferðinni. Ég vona og geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé læs og það sé rétt sem hann hafði eftir upp úr svarinu. En ég bara trúi ekki mínum eigin eyrum, ég verð að segja það, og tek alveg undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta svar virðist vera með algerum ólíkindum og í engu samræmi við gildandi lög í landinu. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst afsökunar á því að enn og aftur er klukkan í ræðupúltinu að stríða okkur, hún gengur ekki rétt en forseti mun gæta að tíma þingmanna.)