139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það fari best á því að hæstv. fjármálaráðherra túlki sitt eigið svar sjálfur vegna þess að ég botna ekkert í því hvernig hæstv fjármálaráðherra dettur til hugar að segja það sem segir í þessu svari, með leyfi forseta:

„Á grundvelli ákvörðunar FME um að færa innstæður Spron til Arion banka gerði bankinn hins vegar þær kröfur til ríkissjóðs að hann staðfesti ábyrgð ríkisins á þessum innstæðum, eins og á öðrum innstæðum í íslenskum bönkum, ef svo færi að verðmæti veðsettra eigna stæði ekki undir þeim skuldbindingum.“

Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Ég hef staðið í þeirri trú að það væri ekki ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi. Það er auðvitað í gildi yfirlýsing frá ráðherrum um að innstæður séu tryggðar en það er ekki ríkisábyrgð í þeim skilningi sem við leggjum í þá ábyrgð. Hana þarf að veita með lögformlegum hætti með lagasetningu þar sem ríkisábyrgðin er tilgreind sérstaklega, fjárhæðin o.s.frv.

Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég á mjög erfitt með að útskýra hvað er hér á ferðinni. Ég leyfi mér að halda því fram að á þessu verði ekki byggt vegna þess að hér virðast vera á ferðinni ekki tilburðir til að segja sannleikann, heldur einhvers konar embættisafglöp af hálfu hæstv. ráðherra sem ekki er hægt að taka mark á að mínu mati.