139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

kostnaður við Icesave-samninganefnd.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hefur enginn kostnaður bæst við, þ.e. samninganefndinni er ekki greitt fyrir það sem hún leggur eftir atvikum af mörkum til kynningar og umræðu um málið. Ég hélt að við værum sammála um að reyna að hafa umræðuna eins málefnalega og kostur er og fara ekki út í að gera hluti tortryggilega, (Gripið fram í.) hvorki störf samninganefndarmanna né störf þingmanna á Alþingi.

Ég tel mig geta upplýst að greiðslur til erlendra aðila vegna ferlisins frá því í upphafi árs 2010 og til og með þessa dags séu yfir 300 millj. kr. Þar eru langhæstu reikningarnir til lögfræði- og ráðgjafafyrirtækjanna Hawkpoint og Ashurst, til lögfræðifyrirtækisins Cleary Gottlieb, Steen & Hamilton sem er fyrirtæki Lees Buchheits og til erlenda ráðgjafans Dons Johnsons, fyrrverandi aðalframkvæmdastjóra OECD, sem starfaði með nefndinni um tíma. Þetta er yfirgnæfandi meiri hluti kostnaðarins. (Forseti hringir.) Innlendir þættir mælast í fáeinum tugum milljóna króna.