139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

skuldsetning þjóðarbúsins.

[10:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það þarf auðvitað ekki að benda hv. þingmanni á það að þegar þessar tölur eru núna skoðaðar erum við að umreikna þær yfir í íslenskar krónur á 20–30% lægra gengi krónunnar en hér hefur verið að meðaltali síðustu 20 árin. Það er rétt að hafa í huga þegar þetta er skoðað.

Hið lága raungengi þýðir á hinn bóginn að útflutningsstarfsemin býr við sterk samkeppnisskilyrði og horfur þar eru góðar þannig að það kemur þá á móti þegar menn reikna háar skuldatölur á núverandi lágu raungengi.

Ég er að sjálfsögðu hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það sem skiptir okkur mestu er að hagkerfið taki við sér og að hér verði vöxtur en það er sérstaklega mikilvægt að sá vöxtur verði í útflutningsdrifinni starfsemi, þ.e. að útflutnings- og samkeppnisgreinar búi við góð skilyrði og verði hér sterkar á komandi árum því að það hjálpar okkur mest í að fóstra og þjónusta okkar erlendu skuldir. Þær voru hins vegar staðreynd. (Forseti hringir.) Hin mikla skuldsetning fjölmargra máttarstoða samfélagsins í efnahagslífinu hjá sveitarfélögum, orkufyrirtækjum og fleirum er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við, og ekki nýtilkomin staðreynd.