139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

evran og efnahagskreppan.

[10:49]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Betri gjaldmiðill, stöðugur gjaldmiðill sem við eigum hlutdeild í, er mikilvægur þáttur í því að við komumst út úr þeim gjaldeyrishöftum sem leika íslenskt samfélag afskaplega grátt í dag. Írar eiga vissulega í mörgum vandamálum og ekkert land sem gengur í gegnum ofþenslu af þeim toga sem Írar hafa gengið í gegnum getur sloppið við hana án efnahagslegra erfiðleika. Írar eiga vissulega við mörg vandamál að etja, en ekki öll vandamál sem t.d. við eigum í. Skuldir heimila vegna íbúðarhúsnæðis hafa ekki rokið upp á Írlandi. (Gripið fram í: Það er ekki …) Heimilin hafa vissulega þurft að þola launalækkun en það hafa íslensk heimili líka þurft að gera. Atvinnuleysi hefur líka fylgt hér á Íslandi.

Á Írlandi er ekki alvarlegur efnahagsvandi og ládeyða í atvinnulífinu vegna þess að skuldir fyrirtækjanna hafi hækkað svo mikið að þær hafi gert fyrirtækin órekstrarhæf. Sú er staðan á Íslandi í dag. Með gengisfalli krónunnar var þurrkað upp eigið fé íslenskra fyrirtækja og þess vegna lætur hagvöxtur á sér standa. Þess vegna hafa fyrstu spár um efnahagslega endurreisn brugðist æ ofan í æ ofan í æ, vegna þess að fyrirtækin á Íslandi eru ekki í færum til þess að nýta þau tækifæri sem skapast með lækkandi gengi krónunnar og sögulega lágu raungengi. (Gripið fram í: … ríkisstjórnina.)

Við höfum ekki heldur getað glímt við þá erfiðleika sem að okkur hafa steðjað nema með gjaldeyrishöftum. Írar eru þó í þeirri stöðu að þurfa ekki að setja upp gjaldeyrishöft. Fólkið þar á raunverulega það val að flýja, fólkið þar á raunverulega þann kost að selja húsin sín og fara með peningana úr landi. En fólkið á Íslandi getur ekki selt húsin sín vegna þess að það getur ekki flutt andvirðið úr landi. (Gripið fram í: Hvers vegna?) (Forseti hringir.) Grundvallaratriðið sem við stöndum frammi fyrir er það (Gripið fram í: Ríkisstjórnarinnar?) að evran er ekki töfralausn á neinu máli (Forseti hringir.) en hún hefði hjálpað okkur í aðdraganda hrunsins. Hún er nauðsynlegur þáttur fyrir okkur í að koma á efnahagslegri endurreisn í framhaldinu til þess að við getum létt af (Forseti hringir.) gjaldeyrishöftum.