139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

lækkun húshitunarkostnaðar og jöfnun flutningskostnaðar.

[10:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við getum auðvitað dvalið við fortíðina og ég er svo sem ekkert að biðjast undan því, en ég held að það sé miklu mikilvægara fyrir okkur á þessari stundu að velta fyrir okkur þeim lausnum sem hæstv. ríkisstjórn boðaði með því að setja á blað hugmyndir um að lækka húshitunarkostnað og jafna flutningskostnað. Þess vegna verð ég að segja eins og er að það olli mér miklum vonbrigðum að svar hæstv. fjármálaráðherra var ekki mjög skýrt. Það kom ekki skýrt fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að húshitunarkostnaður yrði lækkaður, hvað þá að hann yrði lækkaður á þessu ári, og það kom heldur ekki skýrt fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að það væri ætlunin að jafna flutningskostnaðinn. Það er nokkuð sem á að skoða, athuga hvort það væri hægt að færa einhvern hluta af flutningunum og gera að sjóflutningum.

Það leysir hins vegar ekki stóra málið sem er það að flutningskostnaðurinn eins og hann er í dag, við getum velt fyrir okkur ástæðunum, gerir það að verkum að samkeppnishæfni (Forseti hringir.) heilu landshlutanna er óviðunandi. Ég ítreka spurninguna til hæstv. ráðherra: Verður þessu hrint í framkvæmd á þessu ári?