139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

skuldaúrvinnsla fyrirtækja og heimila.

[11:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eitt af stærstu viðfangsefnum okkar eftir hrunið hefur verið skuldaúrvinnsla fyrirtækja og heimila. Þar hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lagt gjörva hönd á plóg og við höfum séð á síðustu vikum tvö verkefni komast á framkvæmdastig, annars vegar hraðbrautina gagnvart fyrirtækjunum og sömuleiðis úrvinnsluna úr gengislánamálunum eftir þau lög sem sett voru á Alþingi fyrr í vetur. Þar hefur auðvitað komið fram ýmisleg gagnrýni eins og vænta mátti á þau fjölmörgu álitamál sem þar eru uppi og sömuleiðis hefur hraðbrautin kannski ekki skilað sér til jafnmargra fyrirtækja og við væntum í þinginu fyrr í vetur. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um mat hans á því hvernig sú framkvæmd stenst væntingar. Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið hann telur ástæðu til að gaumgæfa sérstaklega og hvernig við á þinginu og ríkisstjórnin getum haldið áfram að fylgja skuldaúrvinnslunni eftir. Þetta eru auðvitað svo stór og viðamikil viðfangsefni að við munum aldrei leysa þau með neinum töfralausnum í eitt skipti fyrir öll, heldur þurfum við að vinna úr þeim frá mánuði til mánaðar og frá missiri til missiris í fyrirsjáanlegri framtíð hér á þingi.

Ég inni hæstv. ráðherra eftir áliti á stöðu þessara mála og næstu skrefum í þeim.