139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

skuldaúrvinnsla fyrirtækja og heimila.

[11:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hvað varðar skuldaúrvinnslu fyrirtækjanna skiptir mjög miklu máli að hún komist á gott skrið. Þar verða bankarnir að herða sig og taka betur á. (Gripið fram í.) Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að það verði gert erfiðara fyrir bankana (Gripið fram í.) að hanga á þeim eignum sem þeir eru með og þeir verði að vera fljótari að afskrifa. Við höfum kallað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það útbúi aðferðafræði til þess að áhættuálag verði hækkað á þær eignir sem skila ekki afborgunum, þ.e. vanskilalánin. Við vitum líka að Samkeppniseftirlitið er að herða aðhaldið að bönkunum hvað varðar fullnustueignir og þrýstir á að þeir komi fyrirtækjum í sölu með gagnsæju ferli. Við munum halda áfram á þeirri vegferð, það er mjög flókið mál en það verður að vera þannig (Forseti hringir.) að bankarnir beri af því mikinn kostnað að vinna ekki úr skuldum fyrirtækjanna.