139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

mat á beitingu Breta á l. um varnir gegn hryðjuverkum fyrir íslensk fyrirtæki.

672. mál
[11:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytjum beiðni um skýrslu um fjárhagslegar afleiðingar sem urðu af beitingu Breta á lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og öryggi fyrir íslensk fyrirtæki haustið 2008. Ég fagna því að heyra hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson lýsa yfir stuðningi við þetta mál sem er afskaplega þarft og mikilvægt vopn í þeirri baráttu sem við eigum í og munum væntanlega eiga í, alveg sama hvernig mál þróast á næstu dögum og vikum. Það er afskaplega mikilvægt að við höldum málinu hátt á lofti, þarna var stórlega brotið gegn okkur. Það má svo sannarlega deila um það hvort það hafi verið löglegt en það var klárlega siðlaust. Þarna var lítill stjórnmálamaður í stóru embætti (Forseti hringir.) sem ákvað að brjóta á (Forseti hringir.) vinaþjóð sinni og við urðum fyrir barðinu á því. Við skulum halda því á lofti (Forseti hringir.) og skoða málið vel.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)