139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. innanríkisráðherra tilkynnti við afhendingu menningarverðlauna DV í lok febrúar að hann mundi skipa starfshóp til að láta kanna möguleika á því að menningar- og listageirinn fái í framtíðinni að njóta að einhverju leyti þeirra tekna sem Íslensk getspá hefur af rekstri Lottós. Ummælin komu mjög á óvart og skapa óvissu um farsæla starfsemi samtaka sem gegna mikilvægum þjóðþrifaverkefnum. Hafi ráðherrann hugmyndir um breytingar á þessum vettvangi hefði verið eðlilegt, og sjálfsögð kurteisi við viðkomandi félög, að hann hefði rætt málið við þau í stað þess að viðra hugmyndir sínar fyrst í fjölmiðlum.

Að Íslenskri getspá standa Íþróttasamband Íslands, Öryrkjabandalagið og Ungmennafélag Íslands. Sá fjölmenni hópur sem stendur að baki samtakanna á mikilla hagsmuna að gæta í öflugri starfsemi þeirra. Mikilvægi íþróttastarfs verður seint metið til fjár fyrir okkar samfélag, þátttaka íslenskra ungmenna í fjölbreyttu íþróttastarfi er mikil og það er óumdeilt að börn og unglingar sem stunda íþróttastarf leggja grunn að heilbrigðari lífsháttum til lengri tíma.

Ekki verður annað sagt en að það fé sem rennur til málaflokksins sé nýtt með árangursríkum hætti. Í gegnum öflugt sjálfboðaliðastarf þessara samtaka margfaldast verðmæti þeirra fjármuna sem til þeirra renna og því erfitt að finna ábatasamari farveg fyrir afrakstur Íslenskrar getspár. Það er ekki sjálfsagt að svo fámenn þjóð sem við erum eigum afreksfólk á heimsmælikvarða í mörgum íþróttagreinum. Þar er fyrst og fremst að þakka öflugu starfi sem íþróttahreyfingin stendur fyrir.

Framkvæmdasjóður Öryrkjabandalagsins hefur lyft grettistaki til að bæta lífsskilyrði fatlaðra vegna framlaga frá Lottóinu. Meðal annars hafa verið byggðar sérhannaðar íbúðir fyrir þá og rekin sumardvöl fyrir mikið fatlaða einstaklinga. Öll þessi verkefni eru rekin vegna framlaga frá Íslenskri getspá og öflugri sjálfboðaliðastarfsemi.

Ég vil ekki gera lítið úr mikilvægi menningar fyrir samfélagið en það er engu saman að jafna þegar framlög ríkisins til þessara málaflokka eru borin saman. Á árinu 2010 runnu til listageirans u.þ.b. 6 milljarðar kr. af opinberu fé og ég er þeirrar skoðunar að þar sé vel í lagt. Á sama tíma námu heildargreiðslur ríkisins til æskulýðs-, íþrótta- og útivistarmála um 550 milljónum sem ég tel of lága upphæð. Öryrkjabandalag Íslands fær engin framlög til almennrar félagsstarfsemi sinnar frá ríkinu, heldur sinnir verkefnum sem það fær greitt fyrir.

Það hefur verið ákveðin sátt, virðulegi forseti, um uppskiptingu á happdrættismarkaði á Íslandi. Stærstur hluti þess fjár sem skilar sér í gegnum slíka starfsemi fer til sjálfboðaliðafélaga sem bæta og efla okkar fámenna samfélag. Þannig rennur hagnaður Lottósins til Íþróttasambands Íslands, Öryrkjabandalagsins og Ungmennafélags Íslands. Hagnaður af rekstri söfnunarkassa rennur til Rauða kross Íslands, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og SÁÁ og er hjá þessum félögum ein af grunnstoðum fjáraflana í þeirra óumdeilda starfi. Af sama meiði eru síðan Happdrætti DAS og SÍBS. Ríkið er reyndar þátttakandi á þessum markaði í gegnum Happdrætti Háskóla Íslands.

Það er grundvallarmunur á rekstri spilakassa Happdrættis Háskóla Íslands og Íslenskra söfnunarkassa þar sem rekstur þeirra fer m.a. fram í spilasölum og vinningsupphæðir eru miklu hærri. Má því segja að sú starfsemi hafi á sér miklu meiri blæ spilavíta en annar happdrættisrekstur í landinu. Happdrætti Háskóla Íslands á einnig í samstarfi við erlenda aðila um sinn spilakassarekstur og renna hundruð milljóna króna á hverju ári til þessa samstarfsaðila þeirra erlendis. Samkeppni þessara aðila er að mörgu leyti óheppileg og þess eru dæmi að verið sé að yfirbjóða þóknun til þeirra staða þar sem þessir kassar eru reknir gegn því að fá einokun fyrir viðkomandi rekstur. Það verður að bregðast við þessu, það er útilokað að ríkisstofnun standi í slíkri samkeppni við þau mikilvægu þjóðþrifasamtök sem byggja afkomu sína að miklu leyti á því sjálfsaflafé sem m.a. kemur frá þessum rekstri.

Hugmyndir hæstv. innanríkisráðherra komu eins og blaut tuska framan í þau mikilvægu samtök sem að þessum rekstri standa. Hann hefur áður viðrað hugmyndir um að stöðva rekstur spilakassa í landinu og leggja hann niður. En hæstv. ráðherra hefur ekki svarað mikilvægum spurningum þegar hann hefur sett fram þessar skoðanir sínar. Ég tel hugmyndir hans reyndar að öllu leyti óskiljanlegar og kolrangar. Hann skuldar okkur á þinginu og þjóðinni frekari skýringar á hugmyndum sínum, hvernig hann sér þessum málum komið fyrir í framtíðinni. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra t.d. að bæta þessum mikilvægu þjóðþrifasamtökum upp það fjárhagslega tap sem þau verða fyrir með þeim hugmyndum sem hann hefur viðrað? Mín skoðun er sú, virðulegi forseti, að þau samtök sem hér eiga í hlut séu vel að þessu fjármagni komin og að þessum fjármunum verði ekki betur varið til þess að bæta samfélagið.