139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt að á menningarhátíð DV ekki alls fyrir löngu var þeirri spurningu beint til mín hvort ég sæi það sem möguleika inn í framtíðina að hluti af fjármunum frá Lottóinu eða samsvarandi starfsemi gæti runnið til listastarfsemi þegar fram liðu stundir. Ég sagði að fyrir mitt leyti væri ekki óeðlilegt að skoða þann kost. Í framhaldinu hef ég sagt að ég muni skipa starfshóp til að fara yfir málið og þá horfa til þess sem gerist í grannríkjum okkar.

Þessi starfshópur hefur verið skipaður, það er fulltrúi úr menntamálaráðuneyti, annar úr innanríkisráðuneyti og síðan er formaðurinn utanaðkomandi, utan stjórnsýslunnar, það er Katrín Fjeldsted læknir, fyrrverandi alþingismaður. Þessum starfshópi hefur verið falið að setja fram greinargerð um stöðu þessara mála og tefla fram valkostum, ekki tillögum heldur valkostum til umræðu.

Ég sagði jafnframt á menningarhátíð DV að sjálfur væri ég mjög andvígur því að hafa það fyrirkomulag í landinu að við öfluðum fjármuna til menningarstarfsemi, íþróttastarfsemi, ungmennafélaga og slysavarnafélaga með þeim hætti sem við gerum. Þá horfi ég á hvers kyns fjárhættuspil. Þegar spurt er hvernig eigi að bæta þeim aðilum sem yrðu fyrir fjárhagstjóni af þessum sökum hef ég spurt á móti: Hvernig á að bæta því fólki heilsuna og húsmissinn? Jafnvel hafa margir misst líf sitt af þessum sökum. Ég er alveg óhræddur við að taka þá umræðu við hvern sem er.

Ég geri hins vegar mjög skýran greinarmun á Lottóinu og almennum happdrættum annars vegar og á spilavítiskössunum hins vegar, eins og hv. þingmaður gerði reyndar sjálfur. Í slíkri umræðu hef ég alltaf lagt áherslu á að við þyrftum að tryggja starfsemi þjóðþrifasamtaka, íþróttafélaganna, ungmennafélagsins, slysavarnafélaganna og að sjálfsögðu listalífsins í landinu, en við eigum að vera fólk til að taka þessa umræðu óhrædd og með opin augu. Ég læt ekki hóta mér með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði.

Íslensk getspá er félag í eigu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Öryrkjabandalags Íslands og rekur félagið Talnagetraunir, Lottó á laugardögum og Víkingalottó á miðvikudögum sem og Jóker samhliða þessum tveimur talnagetraunum. Þetta félag starfar samkvæmt lögum sem sett voru árið 1986. Samkvæmt 7. gr. þeirra laga er þar kveðið á um einokun á þessum spilum til þessara félaga. Í 5. gr. er líka kveðið á um hvernig verja eigi ágóðanum, til eflingar íþróttastarfs, starfsemi Ungmennafélagsins og síðan Öryrkjabandalags Íslands.

Í lögunum var upphaflega kveðið á um 20 ára starfsleyfi. Það var síðan lengt og gildir starfsleyfið núna til 1. janúar árið 2019. Engin breyting er fyrirhuguð á þessu.

Ég lýsi því yfir að ég hef að sjálfsögðu fullan skilning á starfsemi þeirra aðila sem er rekin fyrir þetta fé og nefni ég að Öryrkjabandalag Íslands þarf að reiða sig á þessa fjármuni, m.a. til að reka starfsemi sína og sjá félagsmönnum sínum fyrir íbúðum. Ég mundi aldrei taka í mál að hreyfa við þeim málum án þess að tryggja Öryrkjabandalagi Íslands fullnægjandi fjármuni til að standa straum af kostnaði við slíkt.

Ég er einvörðungu að segja að við ætlum að kortleggja málið, við ætlum að skoða það og ræða , við höfum nógan tíma fram undan, (Forseti hringir.) vegna þess að við eigum ekki að ráðast í neinar slíkar breytingar í heljarstökkum. Við erum að tala um mikilvæg félagasamtök (Forseti hringir.) í landinu sem þurfa að geta reitt sig á stöðugleika til langs tíma.