139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég var ekki með neinar hótanir til hæstv. ráðherra, bar bara upp eðlilegar spurningar og vakti eðlilega umræðu um þetta mikilvæga mál.

Ég spyr hann: Hefur hann rætt hugmyndir sínar við þau samtök sem hér eiga í hlut? Hann segist vera búinn að skipa starfshóp. Hann gerir það án þeirra sem hafa mesta þekkingu á þessu máli í landinu. Happdrættisrekstur er í öllum löndum og það er bara hægt að líkja rekstri Happdrættis Háskóla Íslands á spilakössum við spilavíti út af vinningum á þeim stöðum sem það er rekið á. Fjárfesting erlendra aðila á þeim vettvangi var á annan milljarð á síðasta ári með Happdrætti Háskóla Íslands. Þetta raskar mjög þeirri samkeppnisstöðu sem er hér á markaði.

Það er talað um hvernig þurfi að bæta heilsu þeirra sem skaðast af því að taka þátt í happdrættum. Hverjir stuðla að betri heilsu í þessu landi en þau samtök sem njóta t.d. afraksturs Lottósins og þess sem hér um ræðir? Það verða alltaf óheilbrigðir lífshættir að einhverju leyti sem skapa vandamál í öllum samfélögum og við því þarf auðvitað að bregðast, en þessi félög hafa öll sýnt mikla ábyrgð í sínum rekstri og stuðlað að því að leiðbeina og koma að því að hjálpa fólki út úr þeim vandamálum sem geta skapast, alveg eins og er með áfengisvandamálið.

Það sem ráðherra er að gera er að skapa óvissu um það hvernig þetta verður í framtíðinni. Þessi félög þurfa að geta tryggt sig til lengri tíma. Þau þurfa að geta gert langtímaáætlanir og skuldbindingar til lengri tíma. Þegar hann segir hér að aldrei verði hreyft við þessum málum öðruvísi en að tryggja fjármuni til þessara samtaka á móti er það algerlega innihaldslaust, sérstaklega við þær aðstæður sem eru í samfélagi okkar í dag. Því fylgir ekkert loforð sem hægt er að standa við.

Menningin fær 6 milljarða í framlög á ári, æskulýðs- og íþróttahreyfingin 550 milljónir og hugmyndir hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur um að auka þurfi fjármuni til æskulýðsstarfs — ég sé ekki hvernig hægt er að verja því betur. Eins og ég kom inn á áðan fær Öryrkjabandalagið ekkert (Forseti hringir.) til sameiginlegs reksturs eða félagsstarfs. Það fær eingöngu framlög til að sinna þeim verkefnum sem ríkið er skuldbundið til að gera hvort eð er. Það er það eina sem þessi samtök, Öryrkjabandalagið, (Forseti hringir.) fá sérstaklega. Það er verið að raska hér ríkjandi sátt og við það er ekki búandi.