139. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2011.

stjórnlagaþing.

644. mál
[12:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessu máli liggur fyrir nefndarálit frá meiri hluta allsherjarnefndar sem ég skrifa ekki undir, ekki frekar en flokksbróðir minn og félagi í nefndinni, hv. þm. Birgir Ármannsson. Engu að síður styð ég að frumvarp til laga um brottfall laga um stjórnlagaþing verði samþykkt af ástæðum sem ég held að ég þurfi ekki að fara nákvæmlega út í í þessari ræðu og eru öllum kunnar.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að í nefndarálitinu segir að í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er lagt til að ekki verði skylt að auglýsa störf starfsmanna stjórnlagaráðs. Stjórnlagaráði er ætlað að hefja störf hið fyrsta, segir í nefndarálitinu, og mun það starfa í tiltölulega skamman tíma, þrjá til fjóra mánuði, en auglýsinga- og ráðningarferli tekur talsverðan tíma. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að unnt sé að ráða hæft starfsfólk fyrir ráðið með sem stystum fyrirvara.

Ég tel að þetta bráðabirgðaákvæði sé dálítið ankannalegt í ljósi þess að mér skilst að starfsfólk hafi þegar verið ráðið og stjórnlagaráðið hefur þegar hafið störf. (Gripið fram í.) Ég tel að þessu sé dálítið ankannalega fyrir komið í lagatextanum og vil vekja athygli á því. Að öðru leyti styð ég að lög um stjórnlagaþing falli brott.