139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:13]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég kem hingað upp til að ræða um frumvarp um fjölmiðla. Ég vil byrja á að taka undir þakkir til nefndarinnar og formanns hennar fyrir frábært starf og að því er mér hefur fundist til fyrirmyndar í alla staði. Það hefur verið sátt um alla málsmeðferð og vinnan hefur verið vönduð — við höfum að mínu mati snúið við hverjum steini í þessu máli og skoðað hverja einustu grein frá öllum sjónarhornum og vinnan hefur verið afar ánægjuleg og fróðleg.

Mér finnst mjög mikilvægt að við búum við og komum okkur upp samræmdri löggjöf um alla fjölmiðla á Íslandi. Þetta eru afskaplega spennandi tímar hvað varðar fjölmiðla. Þeir breytast frá degi til dags. Það er mikilvægt að við setjum reglur sem gilda alveg sama hver miðillinn er því að það sem er prentmiðill í dag getur orðið rafrænn miðill á morgun. Ég held að það sé t.d. bara tímaspursmál hvenær við hættum að prenta dagblöð og förum að gefa þau út á netinu í pdf-formi sem breytist jafnvel í myndmiðil að einhverju leyti. Við sjáum að þetta er allt að renna saman. Það er mjög mikilvægt að sömu reglur gildi og við setjum ekki upp stór landamæri þar á milli.

Ég get tekið undir margt sem kom fram í máli Ragnheiðar Ríkharðsdóttur þingmanns um samkeppni á fjölmiðlamarkaði og eignarhald í fjölmiðlum. Ég tel í raun og veru að nefndin sé sammála um það og að frekar sé örlítill ágreiningur um vinnulag en efni, þ.e. í hvaða röð við vinnum verkin.

Ég stend að áliti meiri hlutans með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur að því að ég vil ganga örlítið lengra og hef því lagt fram breytingartillögur. Sú fyrri er þannig að við 12. tölulið í breytingartillögu á þskj. 1112 bætist við ný grein svohljóðandi:

„Fjölmiðlum sem hafa hlutlæga miðlun frétta og fréttatengds efnis að markmiði ber að gæta jafnræðis milli ólíkra sjónarmiða stjórnmálaafla og annarra pólitískra hreyfinga.“

Þetta finnst mér mjög mikilvægt. Ég held að gildi þessarar nýju greinar sé að sannast þessa dagana af því að næstkomandi laugardag kjósum við um Icesave-samningana og það hefur sýnt sig að fjölmiðlarnir hafa ekki aldeilis verið hlutlausir í því efni og hafa komist upp með það án þess að gefa upp stefnu sína. Mér finnst allt í lagi að fjölmiðill taki afstöðu en hún þarf að liggja fyrir. Hún á ekki að koma í bakið á þeim sem reyna að afla sér, að því er þeir halda, hlutlausra frétta. Ef eitt dagblað vill vera á móti Icesave-samningunum þarf það að liggja ljóst fyrir. Það á ekki að koma á óvart þegar blaðinu er flett að 20 blaðsíður séu undirlagðar af greinum á móti Icesave-samningunum. Það sama á við um aðra fjölmiðla, stefna þeirra verður að liggja fyrir. Ef þeir gefa sig út fyrir að vera hlutlausir finnst mér að þeir verði að sinna öllum sjónarhornum.

Í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga kom upp eitt atriði á Stöð 2 í kosningaþætti kvöldið fyrir kosningar. Ekki var fulltrúum allra þeirra framboða sem í boði voru boðið að taka þátt. Það finnst mér ótækt. Mér finnst ekki ganga að það fái ekki allir að kynna sín sjónarmið. Ef fjölmiðill vill vera hlutlaus finnst mér að hann verði að kynna öll sjónarmið.

Hin breytingartillagan sem ég er með er svohljóðandi:

„Á eftir 2. mgr. 37. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

Viðskiptaboð stjórnmálasamtaka eru óheimil í ljósvakamiðlum. Þó er heimilt að auglýsa fundi.“

Ég tel ekki eðlilegt að stjórnmálasamtök hafi mismikinn aðgang að fjölmiðlum til að kynna stefnu sína eða stefnumál eftir því hvað þau eiga mikið af peningum eða fá mikla styrki. Það kerfi sem við búum við núna um fjármál stjórnmálaflokka viðheldur þeim völdum sem stærstu flokkarnir hafa á kostnað þeirra sem eru minni. Þeir sem eru litlir fá lítið fé en þeir sem eru stórir fá mikið. Þessi breytingartillaga er svona angi af því að reyna að jafna þetta og eins til að draga úr fjárþörf stjórnmálaflokka. Mér finnst umræða um stjórnmál og kynning á stjórnmálastefnum eiga að vera málefnaleg en ekki framleidd á auglýsingastofum. Því legg ég þetta til.

Sá þingmaður sem talaði á undan mér, Birgitta Jónsdóttir, vék svolítið að upplýsingafrelsi sem er mér líka hugleikið. Það er kannski hluti af þeim spennandi tímum sem við lifum núna. Ég held að við sem fylgjumst með sjáum að það er gífurleg barátta í gangi á heimsvísu um upplýsingar og vald upplýsinga. Við getum t.d. séð áhrif aukins upplýsingaflæðis í janúar í Norður-Afríku þar sem allt í einu fóru að flæða inn upplýsingar, fyrst í Túnis þegar aðilar opnuðu fyrir netið og netsíður sem áður höfðu verið lokaðar og í kjölfarið fylgdi fremur átakalítil bylting og skipt var um valdhafa með friðsömum hætti. Þótt átökin á þessu svæði hafi eins og í Líbíu brotist út í mjög blóðuga styrjöld hafa litlu eða stóru norður-afrísku byltingarnar víðast hvar verið fremur friðsamar. Það held ég að sé í raun bein afleiðing af því aukna upplýsingafrelsi sem er í heiminum.

Það er líka mjög athyglisvert að fylgjast með stóru ríki eins og Bandaríkjunum, sem þykist nú vera lýðræðislegasta og frjálsasta ríki í heimi, þar sem er verið að takmarka upplýsingafrelsi. Um leið og frelsi fólks til upplýsinga er takmarkað er verið að takmarka lýðræðisleg grundvallarréttindi þess. Það finnst mér mjög varhugaverð þróun og tek undir að hér getum við tekið forustu og verið fyrirmyndarland.