139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Ég tók eftir því að hún varpaði fram þeirri hugmynd að hér hefðu menn átt að fara aðra leið í vinnu þessa frumvarps og skera í rauninni frá allt það sem þarna er heimasmíðað, ef svo má segja, og nýta fyrst og fremst þá vinnu sem við fáum í gegnum hljóð- og myndmiðlunartilskipunina. Ég verð að segja að ég er ekki sammála þeirri leið og tel að mörg mikilvæg ákvæði í þessu frumvarpi séu einmitt þau heimasmíðuðu, m.a. þau sem lúta að vernd heimildarmanna. Það er verið að styrkja þá vernd í þessu frumvarpi. Reyndar hefur nefndin áform um að leggja til enn frekari styrkingu á þessari heimildarmannavernd með ábendingum til allsherjarnefndar og ekki síður það ákvæði sem er að mínu viti eitt það mikilvægasta í öllu frumvarpinu um ritstjórnarlega sjálfstæðið. Það er góð og gagnleg ábending í minnihlutaáliti nefndarinnar um að við þurfum að styrkja það ákvæði enn frekar með því að ganga skrefinu lengra en þverpólitíska nefndin var tilbúin að gera 2005 með því að tengja það viðurlögum. Ég vona að nefndin nái saman um að gera það milli 2. og 3. umr.

Þetta eru hvort tveggja ákvæði sem koma inn í vinnu við frumvarpið hér og má m.a. rekja til ágætisvinnu sem þverpólitíska nefndin vann árið 2005. Hún var einmitt með tillögur um eignarhaldið sem ég held að séu allrar athygli verðar og reyndar það góðar að ekki þurfi mikinn tíma til að fara í endurskoðun á því. Það er sjálfsagt að taka smátíma í að fara yfir tillögurnar í ljósi þess sem síðan hefur gerst í efnahags- og atvinnulífi okkar. Ég tel að það sé allt (Forseti hringir.) tilefni til að ganga frá reglum um eignarhaldið innan tilsettra marka sem er fyrir 1. júní að tillögu meiri hluta nefndarinnar.